10.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (1913)

18. mál, sóknargjöld

Hannes Hafstein; Eins og háttv. framsm. (E. P.) gat um, á eg breyttill. á þgskj. 616. Eg hefi komið með þessar tillögur eftir tilmælum prestsins í Siglufirði, hr. Bjarna Þorsteinssonar. Með sóknargjaldslögunum voru úr lögum numin offur, lambsfóður og dagsverk. En 12. gr. laganna ákveður, að prestar, sem taki laun eftir þessum lögum, fái uppbót eftir meðaltali 5 síðustu áranna. En nú hefir það komið fram, þar sem fólksfjölgun hefir verið mikil síðustu árin, að þá hafa þeir prestar tapað við breytinguna. Mest hefir kveðið að þessu í Hvanneyrarprestakalli. Það hefir verið álitið fast »princip«, sem ekki megi víkja frá, að þegar breyting hefir verið gerð á embættum eða tekjum embættismanna, þá megi þeir, sem í embættunum sitja, ekki missa neins í af þeim launum, sem þeir höfðu áður. Það hefir heldur ekki verið meining laganna. Mönnum hefir ekki dottið í hug, að þetta misrétti gæti hlotist af ákvæðinu. Í Siglufirði hefir fólkinu fjölgað mikið síðustu árin, og þess vegna hafa tekjurnar aukist að miklum mun. Tekjurnar, sem presturinn fékk í fardögum 1909, voru 200 kr. hærri en hann nú fær eftir meðaltali 5 síðustu áranna. Presturinn í Siglufirði sneri sér því til stjórnarráðsins með ósk um, að sér yrði greiddur þessi mismunur úr prestlaunasjóði. Biskup áleit, að prestur hefði lagaheimild til þessa, en stjórnarráðið vildi ekki gera þetta upp á sitt eindæmi. Og eg hefi það eftir núverandi ráðherra, að stjórnin líti svo á, sem þetta væri sanngjarnt, en vilji þó ekki greiða féð, nema eftir dómi eða nýju lagaákvæði. Það er til þess að forðast málssókn, að málaleituninni nú er snúið til þingsins, og þessar breytingar fram komnar á frumv., sem hér um ræðir.

Það hefir verið haft á móti því, að greiða mismun þennan, að það mundi verða mjög mikil útgjöld fyrir prestlaunasjóð, því að mjög víða á landinu mun standa svo á, að tekjurnar 1909 hafi verið hærri en meðaltal 5 undanfarandi ára, ekki svo mjög vegna fólksfjölgunar, sem þess, að verðlagsskrá hafi verið óvanalega há síðasta árið á undan breytingunni. Í breytingartillögu minni hefi eg því valið þá millileið, að leggja það til, að miðað sé við tekjurnar 1909, eins og þær yrðu reiknaðar til peningaverðs eftir 5 ára meðaltali meðalálna í verðlagsskránum. Eftir því mundi hækkuð uppbót að eins koma fram þar, sem eiginleg breyting hefir orðið á prestakallinu sjálfu á 5 ára tímabilinu.

Eg hefi hér bréf frá biskupi til stjórnarráðsins út af bréfi frá prestinum á Útskálum og vil eg leyfa mér að lesa úr því lítinn kafla.

.... »En athugavert er það dæmi, sem hér kemur fram, að þar sem sóknartekjur hafa verið ört stígandi hin síðustu ár, getur svo farið, að meðaltalið nái því ekki, að upp beri að bæta prestinum, samkvæmt sóknargjaldalögunum, og hann þó beðið töluverðan halla við gjaldabreytinguna, en við því vildi þó einmitt löggjöfin sjá. Þekki eg annað dæmi miklu stórfeldara frá Hvanneyrarprestakalli í Siglufirði, þar sem mannfjölgun og atvinnu-uppgangur hefir verið svo mikill síðustu árin.

Dæmin eru auðvitað fá, en því auðsóttara mál ætti að vera að bæta þeim fáu, sem hallann líða.«

. . . »Eg benti prestinum á Siglufirði á það í prívatbréfi, að líklega væri ekki annað fyrir en dómstólaleiðin, til að fá hinn tilfinnanlega tekjumissi þar bættan . . . .«

Eftir þessu bréfi að dæma eru það ekki mörg tilfelli, sem hér er um að ræða. Og biskup, sem er þessu allra manna kunnastur og miklu kunnugri því en við, hann segist í þessu bréfi, sem hann hefir skrifað stjórnarráðinu, hafa ráðið prestinum í Siglufirði til þess að fara í mál. Eg vona, að deildin velji þá leið, að samþykkja þessa tillögu mína og firri þannig prestinn þeirri fyrirhöfn og landssjóð þeim kostnaði, sem málsókn gegn landssjóði mundi hafa í för með sér.

Fyrri breytingartillaga mín er orðabreyting að eins en ekki efnisbreyting.