07.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

21. mál, búpeningsskoðun og heyásetning

Sigurður Sigurðsson:

Eg vil leyfa mér að þakka þeim háttv. ræðumönnum, sem hafa lagt frv. þessu liðsyrði. Um leið skal eg taka það fram, að frv. óbreytt er mér ekki neitt kappsmál, og eg tek fúslega á móti þeim bendingum, sem miða að því að bæta það.

Tilgangurinn með þessu frv. mínu, sem er á þgskj. 50, var aðallega sá, að bæta úr göllum þeim, sem menn alment hafa fundið að horfellislögunum. Meðal annars hefir sektarákvæðið í þessum lögum, sem mér vitanlega hefir þó sjaldan verið beitt, hneykslað marga. Spurning getur verið um það, hvort þörf er á lögum um þetta efni. Sumir virðast vera á þeirri skoðun, að hér gerist engra laga þörf. En þá vil eg spyrja þá hina sömu menn, hvers vegna hafa þeir ekki borið fram hér á þingi frv. þess efnis, að afnema horfellislögin? Það gæti eg skilið. Þá væru þeir sjálfum sér samkvæmir. En þeir hafa ekki gert það enn þá.

Þegar það er nú athugað, hvort hér sé þörf á lögum, þá minnist eg þess, að háttv. þm. Mýramanna (J. S.) sagði, að nú væri svo komið, að menn forðuðust heyleysið, og það komi örsjaldan fyrir, að menn feldu úr hor. Það má vel vera, að enginn geri það viljandi, að verða heylaus. En við þekkjum svo mörg dæmi til þess, að sumir menn eru alt af heylausir, hvað góður vetur sem er. Allir vita, hvernig ástatt var síðastliðið vor, þá voru ekki einungis margar sveitir heylitlar, heldur feldu menn víða blátt áfram úr hor, þó lágt færi. Opinberlega vildu menn ekki kannast við þetta, en sín á milli töluðu menn um það og viðurkendu það. Þegar svo er ástatt, vona eg að menn sjái, að það er sízt vanþörf á lögum til þess að koma í veg fyrir heyleysi og horfelli. En hér þarf að fara varlega í sakirnar; lögin þurfa að vera mannúðleg og í samræmi við hugsunarhátt betri hluta þjóðarinnar. Þeir eru margir, sem er meinilla við, að nokkrar sektir séu viðlagðar misjafnri meðferð á skepnum. En gagnvart þeim vil eg geta þess, að við höfum í hinum gildandi hegningarlögum sektaákvæði, enda virðist það og sjálfsagt, að mönnum haldist eigi uppi að kvelja og jafnvel hordrepa skepnur sínar.

En í þessu sambandi vil eg benda á það, að þó vér, meiri hluti nefndarinnar, leggjum það til, að sektarákvæðin falli niður, þá inniheldur 3. gr. frumv. ákvæði um það, að bætt skuli úr fóðurskorti hjá þeim, er lenda í því að verða heylausir, á kostnað þeirra, sem hlut eiga að máli. Þetta álítum við, að jafnist fullkomlega á við sektarákvæði horfellislaganna og þar að auki sé miklu mannúðlegra og meir í samræmi við tilgang þeirra.

Hvað því viðvíkur, sem margir hafa talað um, að skoðunarmennirnir væru svo skyni skroppnir, að þeir þektu ekki ástæður bænda í sveitinni, þá virðist mér nægilegt í því efni að vísa til orða háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) og háttv. þm. Dal. (B. J.). Flestir munu þekkja til kosta og ástæðna jarða í sinni sveit, og það er sannarlega gert of lítið úr þekkingu skoðunarmanna, sem gera má ráð fyrir, að séu með skynsömustu og hagsýnustu bændum hverrar sveitar, að þeir séu eins og álfar komnir út úr hólum og viti ekki, hvað á við hverja jörð, t. d. hvaða jörð er gjafajörð, útigangsjörð o. s. frv.

Vitanlega verður það aldrei fyrirfram sagt með fullri vissu, hve drýgindalega verði farið með fóðrið. En þar sem víðast hvar tíðkast, að bændur hirði sjálfir um hey sín og fénað, má ganga út frá því, að þeim sé það kappsmál, að halda þar sem bezt á.

Fyrri skoðunin er að mínu áliti alveg nauðsynleg sem undirstaða undir hina seinni. Seinni skoðunin nær annars ekki tilgangi sínum. Þegar skoðunarmenn á haustin hafa athugað, ámint og gefið góð ráð, standa þeir mikið betur að vígi til þess að dæma um það, hvernig hefir verið haldið á öllu, og hversu vel ráðum þeirra hefir verið hlýtt og hvernig hægast sé að bæta úr því, sem aflaga kann að fara. Vitanlega verður eigi hjá því komist, að þetta hafi kostnað í för með sér, enda gerir frv. ráð fyrir, að skoðunarmönnum verði borgað starfið. En ef menn vilja ekki leggja neitt á sig í þessu efni, þá horfir málið auðvitað til vandræða. En satt að segja hafði eg hugsað, að öllum væri það áhugamál, að löggjöf vor kæmist í þessu efni inn á braut, sem væri landbúnaðinum holl og hagfeld.

Horfellislögin eru, eins og eg tók fram, óvinsæl, vegna ýmissra ákvæða og ekki sízt vegna sjálfs nafnsins, sem hefir hneykslað marga. En það er áreiðanlegt, að samt sem áður hafa þau ekki verið þýðingarlaus og gert nokkuð gagn. En verði nú þetta frv. samþykt með breytingum góðra manna, þá er þar með ráðin góð bót á annmörkum horfellislaganna og löggjöfin í því efni komin í gott horf.

Eg vænti, að málinu verði vísað til 2. umr. Að fella það nú, væri bæði fljótfærni og skammsýni og sízt af öllu ætla eg bændum að styðja að því.