25.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1613 í B-deild Alþingistíðinda. (1985)

105. mál, íslenskur fáni

Framsögumaður (Skúli Thoroddsen):

Það er rétt, að háttv. þm. Vestm. (J. M.) sýndi mér þessa bók, sem hann var að minnast á. En eg sé ekki að mikið geti verið á henni byggandi, því að það er vitanlegt, að það sem þar stendur eru ekki annað en hugleiðingar höfundarins um, hvernig þetta og þetta ætti að vera og hvað hefir verið venjulegt. Neinn algildur réttur er það ekki og sést það meðal annars á því, að tilvitnanir í slíkar bækur finnast ekki í samningum milli þjóðanna. Það þarf því engan veginn að vera hið eina rétta og sanna. Hver þjóð á að hafa þann rétt, sem henni þóknast og það kemur engum við. Það er því hlægilegt að vera að gera ráð fyrir að senda legáta út um allan heim til að spyrja um, hvort við megum hafa þennan fána.

Sé það rétt, að fullvalda ríki megi ekki hafa sératakan fána, og við séum ekki fullvalda, þá er þó Danmörk fullvalda ríki, og það er hvergi neitt fyrirskipað um það, að fullvalda ríki megi ekki hafa tvo fána.

Auk þess ber oss að halda því fast fram, að Danir hafi viðurkent það með stöðulögunum, að við höfum rétt til að hafa sérstakan fána með því að setja það ákvæði í lögin, að verslun og siglingar séu íslenzk sérmál.

Háttv. þm. Vestm. (J. M.) benti á að kippa þyrfti í lag lagákvæðum viðvíkjandi skrásetning skipa. Það er mikið rétt, en það eru ákvæði, sem við getum breytt, hvenær sem oss gott þykir og eg get ekki séð, að það að sú breyting er ekki orðin enn sé að nokkru leyti því til fyrirstöðu, að þetta frumvarp verði samþykt.

Eg skal svo ekki að sinni fara fleirum orðum um málið. Eg get ekki séð, að mótbárur þær, er fram hafa komið séu á rökum bygðar, og ef Dönum finst sér rangt gert með þessu, þá stafar það af helberum misskilningi frá þeirra hálfu. Öllum ber að eins að líta á þann rétt, sem við höfum og getum ekki, að því er það snertir tekið tillit til þess, hvort Dönum líkar betur eða ver.