24.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í B-deild Alþingistíðinda. (2001)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Björn Jónsson:

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, virðist ef til vill ofan á vera fremur meinlaust, að eins frestun á framkvæmd aðflutningsbannslaganna um fá ár, en þegar það er krufið til mergjar, merkir það raunar sama og afnám þessara laga, vegna þess að þegar einu sinni er fundinn bilbugur á okkur í þessu máli, er ekkert sennilegra, en að frestun fylgi á frestun ofan. Það má telja það stórhapp, að lögin náðu konungsstaðfestingu í hitt eð fyrra. Mótstöðumenn vorir voru ekki viðbúnir þá. Þetta mál er »princip«-mál, sem kallað er. Hvað lítið sem hopað er þar á hæli, er því háski búinn. Það er hætt við, að þá rísi svo mikil alda upp á móti lögunum, að ekki verði hætt fyr en þau séu ónýtt með öllu. Oss er þá varnað þess sem til var stofnað: að ganga undan öðrum þjóðum í þessu mikla mannkynsvelferðarmáli. Það hefir eitt land hér í álfu samþykt hjá sér bannlög. Það var Finnland. En því var afstýrt með nokkurs konar ofbeldi, að lögin hlytu staðfesting. Frakkar hagnýttu sér lánardrottinsstöðu sína gagnvart Rússum, sem skulda þeim ógrynni fjár í peningalánum, til að heimta vægðarlaust af keisaranum í Pétursborg, að hann synjaði lögunum staðfestingar, og það gerði hann. Þessi lög vor hlutu staðfestingu konungs, þrátt fyrir megna mótspyrnu úr ýmsum áttum. En nú á að fara að taka okkur þrælatökum til þess að hætta við alt. Mér finst, að þeir, sem samþyktu lögin á síðasta þingi, ættu að hafa svo mikla manndómstilfinningu, að láta ekki bjóða sér það að hætta við alt saman nú, því að ástæðurnar um tekjuþurð eru ekki annað en hégómi og fyrirsláttur. Það eru nóg góð ráð til þess að varna því, að það beri að höndum.

Eg vil því heita á alla góða fylgismenn laganna frá seinasta þingi að gera ekki þann óvinafagnað, að fara að fresta lögunum nú. Sóma þjóðarinnar vegna getum við það ekki og við megum heldur ekki stofna lögunum sjálfum í hættu með því að fresta þeim. Nefndarskipun og margar umræður um málið virðist óþarfa eyðsla á tíma þingsins og álít eg því réttast að fella frumvarpið nú þegar frá 2. umr.