13.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Framsögum. meiri hlutans (L. H. B.):

Eg skal leyfa mér að víkja fyrst máli mínu að háttv. meðnefndarmanni mínum þm. Akureyrar. Honum þykir málið ekki nógu rannsakað af oss nefndarmönnum, en hann gleymir því að Nd.nefndin á að rannsaka hag bankans. Og mér er spurn, hvernig hefðum vér átt að rannsaka það atriði, úr því að ekki er hægt að neyða ráðherra til að gera einföldustu skyldu sína, að svara nefndinni, að eg ekki tali um síðustu stjórnarathöfn hans, vonandi hina síðustu, þá að banna Magnúsi Sigurðssyni að afhenda rannsóknarnefnd háttv. neðri deildar matsbók bankarannsóknarnefndarinnar, bókina, sem nefndin á bls. 17 í skýrslu sinni telur áreiðanlega og örugga sönnun fyrir því, að tap bankans sé rétt metið. Landritari hafði skipað að afhenda bókina — hún átti auðvitað að vera í stjórnarráðinu, en hefir aldrei komið þangað — en í dag hefir ráðherra skriflega bannað að afhenda þingnefndunum bókina, hefir gefið hana bankarannsóknarnefndarmönnunum sálugu, vitanlega af því, að hann veit að það væri dauðadómur sinn, ef bókin kæmi í dagsins ljós. Það er ótrúlegt, að ráðh. skuli hafa hegðað sér jafn óviturlega, en eg hefi það eftir háttv. formanni rannsóknarnefndarinnar í neðri deild, sem hér er staddur í deildinni.

Háttv. ræðumaður vildi enn leggja mikið upp úr skýrslu dönsku bankastjóranna, hann sagði, að hún sýndi oss eins og í spegli ástandið í bankanum; mér finst það mætti heldur kalla hana spéspegil en spegil, svo einhliða heyrðist mér málið reyft þar. Og hvað sem öðru líður, þá hefir hún ekki sönnunargildi um annað en það sem séð varð í bókum bankans, en er alveg ónýt um alt annað, sérstaklega um það, sem nú er gjört mest veður af, hinu væntanlega tjóni bankans. Um það geta bankamennirnir ekkert borið af eigin þekkingu, og ekki hafa þeir getað aflað sér mikillar þekkingar hjá gömlu bankastjórninni í þenna hálftíma, sem þeir áttu tal við hana, eftir að þeir höfðu lokið rannsókn sinni. Annars er undarlegt að hann, „sjálfstæðismaðurinn“, skuli altaf vera að vitna í þessa dönsku menn og lofa þá á hvert reipi, en lasta viðleitni samverkamanna sinna til réttrar lýsingar.

Þá vitnaði háttv. þingmaður oft í skýrslu bankastjórnarinnar núverandi, sem Ísafold hefir verið látin flytja, svo furðanlegt sem það er, að landstjórnarblað skuli flytja aðra eins skýrslu, sem hlýtur að grafa undan Landsbankanum það litla traust, sem hæstv. ráðherra hefir skilið honum eftir, verði henni annars trúað. Eg spurði Björn Kristjánsson bankastjóra, hvort hann hefði látið skýrsluna í blaðið, en hann neitaði því og er þá ekki öðrum til að dreifa en annaðhvort hv. ráðh. eða hv. þm. Ak. og tel eg líklegra að ráðh. eigi hér sök að. Hann hefir alla tíð legið á því lagi, að gera sem mest úr hættu bankans og að ófrægja gömlu bankastjórnina.

En hvað sem því líður, þá eru margar af aðfinningum bankastjóranna þannig lagaðar, að þeir hefðu ekki átt að láta sér sæma að bera þær fram. Það er fundið að því, að mörg veðdeildarlán — Ísafold sagði 84, en þau hafa nú lækkað ofan í 71, eftir því sem háttv. þingm. Akureyrar fórust orð — væru þannig, að engin lóð fylgdi húsunum. Þetta eru ósannindi. Eftir prentuðu formi, sem haft hefir verið við Landsbankann og eg hefi í höndunum, eru bankanum veðsett húsin „með öllu sem þeim fylgir og fylgja ber“. En hvað er það sem húsi fylgir og fylgja ber fremur en lóðin, og svo gluggar, ofnar og því um líkt. Annað eins og þetta máttu hinir nýju bankastjórar, jafnvel þótt viðvaningar séu, ekki með nokkru móti láta hafa eftir sér.

Þá er fundið að því, að mörg af sjálfskuldarábyrgðarlánunum séu töpuð, af því að lánin hafi verið endurnýjuð, án þess að ábyrgðarmenn hafi verið spurðir um. Vita bankastjórarnir þá ekki, að síðan 1904 hefir það verið standandi ákvæði í sjálfskuldarábyrgðarbréfum Landsbankans, að ábyrgðarmenn væru bundnir þangað til skuldinni væri lokið, hvað sem endurnýjun lánsins liði. Bankinn getur því ekki tapað neinni kröfu, sem þannig er búið um, þó að lán kunni að hafa verið framlengt, án þess að ábyrgðarmennirnir væru aðvaraðir.

Enn er fundið að því, að mikið vanti á að húseignir, sem veðsettar eru bankanum, séu vátrygðar. Það er bygt á því, að vottorð fyrir mörgum vátryggingum vanti. En það þarf enganveginn að vera. Fyrst og fremst geta eignirnar verið prýðilega vátrygðar, þó að ekki liggi vottorð um það í bankanum, enda gæti eg trúað því, að líkt sé ástatt um fleiri og var um mig, meðan eg var viðskiftamaður bankans. Eg sýndi bankanum á hverju ári kvittun fyrir vátryggingargjaldi af húsi mínu, en tók það alt af með mér til baka. Í öðru lagi hefði bankastjórnin átt að vita, að það kvað vera samningur milli nokkurra ábyrgðarfélaga og bankans, að þau segi bankanum til, ef ekki eru borguð áskilin vátryggingar gjöld. Þetta hlýtur háttv. þm. Akureyrar að vita, sem er gæzlustjóri útibús Landsbankans á Akureyri, en hann hefir líklega í grandaleysi tekið orð bankastjóranna trúanleg.

Háttv. þm. sagði ennfremur, að bankavaxtabréfin, þessi 587,000, væru ekki sölugeng á kauphöllinni í Kaupmannahöfn. Það er rétt, enda hefi eg aldrei sagt neitt í aðra átt. Það átti heldur ekki að selja þau þar, heldur átti landssjóður að kaupa þau samkv. fyrn. lögum nr. 14, 1909.

(Kr. J.: Ráðherra var búinn að lofa mér að kaupa 500 þúsund).

Því fremur. Og það gat landsjóður, átti nægilegt fé til þess í bönkunum og bankarnir bæði færir um og skyldir til að svara því út, „Ísl.-banki“ t. d. með seðlum ef ekki með öðru móti.

Það nær engu tali, sem háttv. þingm. Akureyringa sagði, að 43. gr. stjórnarskr. ætti við embættisbrot ráðherrans. Nei, við þau á 2. gr. stjórnskpl. frá 1903, sem segir: „Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur hans eftir þeim reglum, er nánara verður skipað fyrir um með lögum“, ráðherraábyrgðarlögin 4. marz 1904 og 13. kapt. hegningarlaganna, og svo að meðferðinni til landsdómslögin 20. okt. 1905. Annars er þetta látlausa hæstaréttarjarm nokkuð einkennilegt í munni svokallaðra sjálfstæðismanna. Og þá ekki síður hitt að bæði háttv. þm. Akureyringa og þm. Strandamanna virðast hafa ætlast til að ráðherra léti lög Landsbankans lúta í lægra haldi fyrir „Landmandsbanken“, jafnvel þó að sýnt sé og sannað, að Landsbankinn hafi ekki verið upp á Landmandsbanken kominn. En þó svo hefði verið, þá hefði ráðh. ekki mátt láta útlenda stofnun kúga sig til að brjóta tvímælalaus íslenzk lög.

Vér nefndarmenn höfum átt í sífeldu stríði við að fá hv. ráðherra til að gæta skyldu sinnar, en það hefir ekki lánast. Hann hefir með framkomu sinni gagnvart nefndinni brotið stjórnarskrána dag eftir dag. Háttv. skrifari nefndarinnar og háttv. þm. Ak. voru sendir til hans, og gerðu eitt sinn það sem þeir gátu til að fá hann til að gegna fyrirmælum 23. gr. st.skr. Hvernig það fór, má sjá á útdrætti úr fundabók nefndarinnar, sem prentaður er með nefndarálitinu, og er svo litlaus og ljós að hann lýsir ráðherra bezt óskýrður. Hæstv. ráðherra hefir hagað sér í máli þessu bæði ósæmilega og óviturlega.

Það var nýjabragð af því, sem háttv. þm. Strandamanna sagði, að efri deild hefði ekki átt að fjalla um þetta mál. Og væri gaman að fá að vita, hver mundi eiga að setja gæzlustjóra efri deildar inn í bankann, ef deildin sjálf ætti ekki að gera það. Það getur enginn annar gert það, ekki neðri deild, ekki hæstiréttur, enginn nema hún. Að sínu leyti eins getum vér e.d.menn ekki sett inn gæzlustjóra neðri deildar, það getur enginn nema neðri deild.

Hv. þm. Skagf. þótti nefndin hafa farið ranga leið. En af því að hann er samdóma nefndinni um merg málsins, skal eg ekki deila við hann um það. Það var réttilega tekið fram af hv. þm. Skagf., að ástandið við bankann, eins og það er nú, sé ólöglegt, en það er afleiðing af þeirri óhæfu, sem framin var 22. nóv. 1909 og því að gæzlustjórunum var ekki hleypt að 1. jan. 1911. Af því leiðir meðal annars, að gæzlustjórarnir svonefndu, sem setið hafa í bankanum síðan 1. jan. 1910, hafa ekki átt löglegt sæti þar, og eru gerðir þeirra því ólögmætar.

Hann gat þess að ráðherra hefði komið til hugar að setja gæzlustjórana inn í bankann við nýár, og kemur það vel heim við það sem háttv. forseti hefir borið um það efni fyrir nefndinni; hann hafði verið hér á ferð mjög seint á árinu, um það leyti sem dönsku bankastjórarnir voru að fara, — þeir fóru ef mig minnir rétt á annan í jólum, — og sagðist hann hafa farið heim í þeirri trú, að ráðherra ætlaði að setja gæzlustjórana inn aftur um nýár, enda skýrt hv. þm. Borgf. frá þeirri von sinni. Og væntir mig að enginn væni prófastinn í Görðum um, að hann segi ósatt, þótt hann stundum komi öðruvísi fram sem forseti en skyldi. En þessi fyrirætlun ráðherra sýnir einmitt, að hann hefir talið ólöglegt að meina gæzlustjórunum sæti þeirra eftir nýár.

Eg er sammála háttv. 2. þm. Skagf. um það, að ef eg ætti að gera upp á milli liða þingsályktunarinnar — eg hefi afhent forseta beiðni um að hún verði borin upp í þrem liðum, — þá teldi eg þriðja liðinn minst verðan, og á hann þó töluverðan rétt á sér, því að vel verður á það að líta, að gæzlustjóri var ekki eingöngu að reka réttar síns, heldur líka deildarinnar, sem ráðherra hafði ráðist á. Þess má og geta, að hér átti hlut að máli æðsti dómari landsins, sem manna sízt mátti þola orðalaust aðra eins lítilsvirðingu og rangsleitni og þá er ráðherra sýndi honum.

Háttv. 2. þm. Skagf. þótti kenna ósamræmis í því að leggja til að greiða gæzlustjóra útlagðan kostnað, þar sem málið ekki væri fullrannsakað enn. Eg lít nú svo á, að það sé fullréttlætt að setja gæzlustjórann inn, og það kannast þingm. sjálfur við, og skiftir þá ekki máli, þó að hið svokallaða bankamál sé ekki að öðru leyti fullrannsakað enn, t. d. það, á hverjum eigi að lenda hinn mikli kostnaður, um 9000 kr., út af bankarannsóknarnefndinni m. m.

Eg legg persónulega ekki svo mikið upp úr þriðja lið tillögunnar og eg ímynda mér, að hann sé heldur ekki háttv. þm. Borgfirðinga jafnfastur í hendi og hinir liðirnir. En hér er að minsta kosti um sanngirniskröfu að ræða, enda alvanalegt, að umbjóðandi verði að blæða fyrir umboðsmann sinn. Í þessu falli er landssjóður umbjóðandinn og verður að blæða fyrir umboðsmann sinn, ráðherra, þótt eigi ætti það að vera nema til bráðabirgða. Eg skal játa, að eg hefi enga sérlega tyrkjatrú á landsdómum, en samt trúi eg því ekki, að ráðherra mundi verða sýknaður af öllum þeim ávirðingum, lagabrotum og fl., sem hann hafa hent þau tæp tvö ár, sem hann hefir setið að völdum.

Að endingu vil eg þakka háttv. 2. þm. Skagf. fyrir það, hve sanngjarnlega hann lítur á þetta mál, og fyrir þann styrk, er hann lætur nefndinni í té með því að fylgja 1. og 2. lið tillögunnar. Og er vonandi, að fleiri stjórnarmenn fari þar að dæmi hans, enda þeim sjálfum sæmilegast að gera það.