28.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

147. mál, ölgerð og ölverslun

Framsögum. (Ólafur Briem):

Nefndin hefir leyft sér að koma fram með nokkrar brtill. við þetta frumv. 1. brtill. er á þgskj. 764, að í stað orðanna í 1. gr. frumv. »er flytja má til landsins samkv. 1. gr. laga 30. júlí 1909 um aðflutningsbann á áfengi«, komi: sem í er 2¼ % eða minna af vínanda (alkóhóli) eftir þyngd. Nefndin hefir leitað upplýsinga hjá efnafræðingi Ásgeir Torfasyni og getur hann þess, að í staðinn fyrir að reikna styrkleika áfengis, sem bannað er að búa til í landinu, eftir rúmmáli, eins og gert er í 1. gr. bannlaganna, sé í alla staði betur viðeigandi að miða styrkleikann við þyngd.

Nefndin hefir fengið nákvæma skýrslu um þetta hjá efnafræðingnum, og hefir hann skýrt svo frá, að nálega alstaðar í heiminum sé vínandi nú talinn í þyngdarprósentum. Og ennfremur hefir hann gefið þá skýringu, að l 4/5 eftir þyngd, svari til 2¼ eftir rúmmáli. Er þá mismunurinn 9/20. Áleit nefndin því, að þessi breyting gæti ekki verið neitt ísjárverð, heldur miklu fremur til bóta, þar sem að öðrum kosti útilokast öltegundir, sem bindindismenn alment drekka hér á landi og annarstaðar t. d. Carlsbergs skattfrjálsa öl.

Þá er breytingartillaga við 3. gr. staflið a, sem er að eins orðabreyting til skýringar. En breyt.till. við 3. gr. stafl. b, er veruleg efnisbreyting, þar sem svo er ætlast til, að landssjóður taki engan þátt í gróða félagsins, fyr en að greiddir eru 6% vextir af hlutafénu, í stað þess að í frumv. er gert ráð fyrir, að landssjóður fái helming af gróða félagsins, þegar hinir útborguðu vextir hafa náð 5%, og er þessi breyting gerð til þess að bæta kjör hluthafa, án þess þó að landssjóður missi mikils í. Nefndin hefir í máli þessu meðfram farið eftir bendingum efnafræðings Ásgeirs Torfasonar, sem hefir sérstaklega haft tilefni og tækifæri til þess að athuga það, því að hann var formaður nefndar, sem nokkrir bæjarbúar hér í Reykjavík, er hug höfðu á málinu, kusu á síðastliðnum vetri til að rannsaka málið og undirbúa það til framkvæmda.

Þá er breyt.till. á þgskj. 796, frá hv. þm. Dal. (B. J), sem fer fram á, að 4. gr. frv., sem kveður á um einkarétt til ölverzlunar, falli burtu. Er hún í samræmi við tillögu, sem áður er framkomin frá sama háttv. þm., að annaðhvort skuli enginn hafa einkarétt til ölverzlunar, eða þá að hann nái til allra bæja- og sveitafélaga. Nefndin heldur fast við frumv. og skírskota eg til þess, er hún hefir látið í ljósi um þetta atriði. Frv. kveður að eins á um heimild fyrir stjórnina að veita þetta einkaleyfi. Hér er því að eins að ræða um heimild, en enga skyldu, fyrir landsstjórnina, svo að ef hún kemst að raun um, að einkarétturinn verði ærið óvinsæll eða öðrum vandkvæðum bundinn, þarf hún ekki að veita þetta leyfi. Nefndin álítur því ekki varhugavert að hafa þessa heimild í lögunum, og getur það þá farið eftir atvikum, hvort sú heimild verður notuð. Þetta virðist því síður neitt ísjárvert, þar sem einkaleyfið, ef til kemur, á að veitast bæjarstjórninni, sem eftir stöðu sinni hefir sérstaka hvöt til þess að líta í þessu sem öðru hlutlaust á hag bæjarbúa.