24.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1676 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

26. mál, skógrækt

Framsögum. (Pétur Jónsson):

Við 1. umr. þessa máls, skýrði eg frá skoðun nefndarinnar á því og gerði grein fyrir hinum helztu breytingum, sem hún vildi gera á frumvarpinu og skal eg ekki taka mikið af því upp aftur hér.

Viðvíkjandi breytingartillögum háttv. þm. Dal. (B. J.), sem eru töluvert víðtækar og breyta frumvarpinu töluvert, þá mun flutnm. frumvarps þessa 2. þm. Árn. (S. S.) taka til máls og mótmæla þeim, því hann er málinu miklu kunnugri en eg og getur skýrt tilgang þess miklu betur, með því hann hefir sjálfur samið það.

Eg skal einungis taka það fram, að nefndin getur ekki fallist á breytingartillögur háttv. þm. Dal. (B. J.), því ef þær verða samþyktar, þá væri þetta frumvarp ekki annað en einungis sameining laganna um skógrækt og varnir gegn uppblæstri landa frá 22. nóv. 1907 og laganna um meðferð skóga og kjarrs og friðun á lyngi o. fl. frá 30. júlí 1909, en aðaltilgangur frumv. tekinn burt. En það er einmitt þessum lögum, sem nefndin hefir fallist á að breyta og sameina þau um leið.

Í sambandi við þá breyttill. nefndarinnar, að nema burt úr 2. gr. frv. og svo fyrirsögninni orðin: »og sandgræðslu« skal eg taka þetta fram: Eg benti á það við frh. 1. umr., að nefndin hefði komið sér saman um að auka störf skógræktarstjóra við sjálfa skógræktina, og þá þótti nefndinni sjálfsagt að losa hann við skyldu til að hafa sandgræðslueftirlitið öðru vísi en eftir samkomulagi við stjórnina og að hún borgi honum þá þóknun fyrir það sérstaklega.

Í breyt.till. háttv. þm. Dal. (B. J.) við 5. gr. frv. er farið fram á þá efnisbreyting frá gildandi lögum, að banna hrísrif. Í frumvarpi því, sem upphaflega lá fyrir þinginu 1909 var rif á hrísi og lyngi bannað. En því var breytt á þinginu á þá leið, að rif á hrísi og lyngi mætti banna, þar sem það gæti valdið skemdum. Eg skal leyfa mér að lesa upp greinina í lögunum frá 1909, hún hljóðar þannig:

»Banna má að rífa fjalldrapa og víði á þeim svæðum, er ætla má, að slíkt geti valdið uppblæstri landsins eða verulegum skemdum«.

Þetta vil eg að haldist óbreytt. (Bjarni Jónsson: Hrís er ekki sama og fjalldrapi). Eg hefi aldrei heyrt talað um mun á fjalldrapa og hrísi og þekki þá ekki hvað hrís er. Eg skil það sama við hrís og almenningur gerir, að hrís sé fjalldrapi og smávíðir. (Bjarni Jónsson: Hrís er sama og birki).

Hér er breytingartillaga á þskj. 300. Eg hefi ekki haft tíma til þess að átta mig á henni, en eg hygg orðalag gr. verði skýrara með því móti, ef hún verður samþykt, en ella, en get þó ekki mælt með henni fyrir nefndarinnar hönd.

Í stuttu máli eru hinar framkomnu brtill. til þess, að nema burtu þann tilgang frv., að spara mannahald og kostn að í því skyni, að fé það, sem þingið veitir til skógræktar, geti náð talsvert lengra, en til þessa kostnaðar eins. Þess vegna verður að fella þær, nema deildin vilji veita nægilega mikið fé til skógræktarinnar.