08.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

75. mál, stjórnarskrármálið

Steingrímur Jónsson:

Mér finst umræðurnar hafa komist fulllangt inn á einstök atriði frumvarpsins við þessa 1. umræðu málsins í deildinni. Eg vil ekki að sinni taka neitt fram um afstöðu mína til einstakra atriða, en geymi mér rétt til þess, þar til eg hefi fengið tækifæri til að athuga málið betur, þegar það er komið úr nefnd. Að þessu sinni get eg að eins sagt það, að eg álít nauðsynlegt að stjórnarskrárbreyting gangi fram á þessu þingi, og að það frumv., sem þingið afgreiðir, hafi inni að halda ýms þau atriði, sem nú eru í þessu frumvarpi, eins og það er komið frá neðri deild. En það sem kom mér til að standa upp var það sem minst hefir verið á hömluákvæði frumvarpsins. Um þau ákvæði hefir verið allhörð deila í neðri deild, bæði í deildinni sjálfri og auðvitað ekki síður á bak við tjöldin. Í þessu efni er það mjög þýðingarmikið spursmál, hvernig efri deild á að vera skipuð. Það er nauðsynlegt að nokkrar hömlur séu þar, og er svo eftir því fyrirkomulagi, sem nú er. En sú skipun deildarinnar, sem nú gildir, er vafalaust óheppileg og að minsta kosti er enginn efi á því að hún er allsendis ósamrýmanleg við pólitískan hugsunarhátt nútímans. En það sem eg ætlaði aðallega að minnast á var þetta, sem háttv. þm. Akureyrar sagði áðan um að hömlurnar eftir frv. væru óhæfilega miklar. Því til sönnunar benti hann á það, hve fyrirkomulag Landsþingsins í Danmörku hefir valdið mikill óánægju. En þetta er ekki réttur samanburður. Fyrst og fremst er það aðgætandi, að í Danmörku er ekkert sameinað þing, eins og hér er. Og í öðru lagi er það, sem menn hafa aðallega verið óánægðir með í Danmörku, hinn svokallaði „privilegerede Valgret“, þ. e. hvernig kosningum til Landsþingsins er hagað þar, en engu slíku er til að dreifa eftir frumvarpinu, sem hér liggur fyrir. Það er þetta sem Dönum þykir hafa verið illa ráðið 1866, en það er ekki rétt að taka dæmi af því í þessu sambandi.