22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1739 í B-deild Alþingistíðinda. (2085)

9. mál, prentsmiðjur

Framsm. minni hl. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Háttv. þm. Snæf. (S. G.) er auðsjáanlega mjög sárt um bókasöfnin út um landið. Mér virðist réttmætara, að landssjóðsstyrkur til safna þessara sé aukinn sem svarar virði slíkra bóka, heldur en að halda við þessari kvöð á bókaútgefendum. Hér á landi er því þannig farið, að helmingur allra bókaútgáfna ber sig ekki. Útgefendur verða oft að leggja fé í sölurnar og rithöfundar fá aldrei sæmileg ritlaun, oft alls engin. Og svo eru þessir skattar lagðir á þá fram yfir aðra menn. Upphaflega voru hér á landi 4 söfn, sem höfðu þessi forréttindi. Í hitt eð fyrra var svo einu bætt við, og með því er skapað það fordæmi, að seinast fái hvert hreppsbókasafn þau réttindi. Eg sé ekki ástæðu til að leggja skatt á bókaútgáfur fram yfir aðrar atvinnugreinar í landinu, og ekki geta bókmentir vorar þótt svo óþarfar, að réttmætt þyki að leggja sérstaka refsingu á útgefendur bóka.

Eins og nú er, koma þessi söfn einungis fáum öðrum mönnum í kauptúnum að góðu, en embættismönnum og kaupmönnum, en ekki fátækum, námfúsum æskulýð. En þó þau gætu komið fleirum að góðu, þá á landssjóður eða aðrir að standast kostnaðinn af því, en ekki útgefendurnir og rithöfundarnir. Rithöfundar vorir eru flestir, því miður, sjálfir fátækir menn, og koma því þessar álögur illa niður á þeim.

Annars eru þessi bókasöfn, eins og lestrarfélög, til þess að draga úr bókakaupum, og eru því niðurdrep bókmenta í landinu.