10.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1806 í B-deild Alþingistíðinda. (2168)

37. mál, breyting á fátækralögum

Framsm. (Jón Magnússon):

Eg hefi litlu að bæta við það, sem eg sagði við 2. umr. málsins. Nefndin hefir getað fallist á 2. brtill. á þgskj. 601; hún er sanngjörn og í rauninni sjálfsögð vegna fræðslulaganna. Nefndin viðurkennir og, að mikið mæli með hinni fyrstu brtill. á sama þgskjali, því að ástæða getur verið til þess að veita fátækum mönnum hjálp af almannafé, án þess að það verði reiknaður fátækrastyrkur, til þess að leita sér læknishjálpar, þegar þeir geta það ekki upp á eigin spítur, en þó er nefndin að svo stöddu ekki viðbúin að leggja til um svo verulega breytingu á fátækralögunum og þýðingarmikla. Sama er um 3. brtill. að segja. Það getur verið ástæða til að hjálpa mönnum í þeim kringumstæðum, að þrot þeirra stafa af barnafjölda, en nefndin hefir af sömu ástæðu, sem eg taldi ekki getað fallist á hana. Hér er að vísu um smábreyting að ræða, en sífeldar breytingar á lögum, sérstaklega sveitarlögum, eru mjög óheppilegar. Það kemur óvissu inn í réttarmeðvitund þjóðarinnar, réttarmeðvitundin verður meira á reiki, ef engin lög mega standa óbreytt ári lengur. Lögum á ekki að breyta nema eftir nægilega umhugsun, þegar reynsla er fengin fyrir því, að þau sé óheppileg eða megi betur fara. Lögin eiga að vera þannig yfirleitt, að þau geti verið gild um langan tíma undir líkri skipun þjóðfélagsins. Eg segi þetta ekki beinlínis af því, að eg leggi í sjálfu sér mikla áherzlu á, að þessar brtill. verði ekki samþyktar, en kysi þó helzt, að að eins 2. brtill. nái fram að ganga.