10.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (2170)

37. mál, breyting á fátækralögum

Framsm.(Jón Magnússon):

Þegar eg gat þess, að mér væri það ekkert kappsmál, að þessar brtill. yrði feldar, þá hafði eg ekki heyrt ræðu hv. þm. Sfjk. (B. Þ.). Hann. gat þess, að brtill. beri að eins að skilja svo, að um heimild sé að ræða, en enga skyldu. Ef sjúkur maður þarf styrks við, er sveitarstjórnin skyld til að veita hann. Eg vil biðja hv. flutningsm. að lesa upphaf greinarinnar aftur og sýna, hvernig hægt sé að fá hans skilning út úr henni. Það er svo einfalt mál, að orðin verða ekki misskilin. Ennfremur vil eg spyrja hv. flutningsm., hvort hann hafi gert sér hugmynd um, hvaða afleiðingar samþykt þessa ákvæðis getur haft í sambandi við önnur lagaákvæði. T. d. má geta þess, að dvöl á Kleppi og berklahælinu er hálfu ódýrara fyrir þurfamenn. Þegar nú þeir menn, sem styrk fengju samkvæmt þessu ákvæði, kæmu á sjúkrahælin, þá yrði að borga fult verð með þeim, því að þeir álitust ekki þurfamenn. Menn sjá á þessu, hve varhugavert það getur verið, að fara að breyta lögum, án þess að líta á, hvaða þýðingu það getur haft fyrir önnur ákvæði. Eg held, að hv. flutningsm. hafi ekki hugsað þessar brtill. sínar nægilega, og vona því, að þær verði ekki samþyktar.