06.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1817 í B-deild Alþingistíðinda. (2184)

41. mál, etirlaun Torfa Bjarnasonar

Jón Sigurðsson:

Eg get sagt hið sama sem háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.), að þó að eg telji Torfa Bjarnason alls góðs maklegan fyrir æfistarf sitt og vilji því fúslega unna honum þeirra heiðurslauna, sem frumvarpið fer fram á, þá finst mér formið óheppilegt. Á síðasta þingi var svipað mál til umræðu hér í deildinni, sem sé umsókn frá einum hinum atkvæðamesta bónda landsins, Þorvaldi á Eyri, um 1000 kr. styrk í eitt skifti fyrir öll; sú umsókn mætti hinum mesta andbyr hér í deildinni, mönnum þótti ótilhlýðilegt, að bóndi væri að sækja um eftirlaun, enda vil eg játa, að bezt væri, að bændur þyrftu ekki að sækja um slíkan styrk. En úr því honum, slíkum öndvegishöld, var neitað um svo lítinn styrk, þykir mér eigi hlýða, að Torfa Bjarnasyni séu veitt eftirlaun með sérstökum lögum. Eg vil engan veginn gera lítið úr þeim áhrifum, sem hann hefir haft, en flest það, sem hann hefir unnið, hefir hann unnið á landsjóðs kostnað, og þeir menn finnast mér meira virði, sem framfarasporin hafa stigið á eigin kostnað. Trú slíkra manna er sannarlega verðlauna verð. — Eg felst því á tillögu háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) um rökstudda dagskrá.