06.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1899 í B-deild Alþingistíðinda. (2289)

34. mál, lögskráning mannanafna

Jón Þorkelsson:

Þó að mitt nafn hafi nokkrum sinnum verið nefnt í þessum umræðum, hefi eg þó að eins heyrt 3 menn tala þá: 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.), þm. Dal. (B. J.) og 1. þm. Eyf. (H. H.) — aðra ekki.

Það kom fram í ræðu hv. 1. Eyf. (H. H.), að engar reglur væru settar fyrir því í frv., hvaða afleiðingar það hefði í för með sér, ef nöfn væru ekki rétt skrásett. Hann hefði víst ekki þurft að segja þetta neinum öðrum en sjálfum sér, því að það er skýrt tekið fram í frv., að ef nafnið er rangt sett á skrá, getur viðkomandi með slíkri skrásetning hvorki bundist skyldum né öðlast réttindi. Af því leiðir auðvitað, að menn eru ekki skyldir að borga þá reikninga, sem nöfn þeirra eru rangfærð á. Og eg vil taka það fram, að það er ekki að orsakalausu, að ákvæði þetta er sett inn í frv. Bæði eg og aðrir fleiri höfum rekið okkur á það, hve oft nöfn okkar hafa verið rangt rituð. Eg hefi t. d. fengið reikning fyrir aukaútsvari, þar sem á stóð Þorkelsson Jón. Eg heiti það ekki og vil ekki vera skyldaður til að borga þá kröfu, þar sem menn ekki kunna að fara með nafn mitt.

Mundi Íslandsbanki, þar sem hinn hv. 1. þm. Eyf. (H. H.) er bankastjóri, taka þann víxil gildan, sem öfugt væri á rituð nöfn, svo sem Ólafsson Jón, Hafstein H. og þar fram eftir götunum? Mundi nokkur dómari skylda skuldunaut til að greiða þann víxil? Það er ekki rétt eða sæmilegt, að tala um þetta mál eins og háttv. 1. þm. Eyf. (H. H) gerði. Þetta er enginn leikur. Það er alvörumál. Ruglingur á opinberum nafnaskrám hér á landi hefir verið og er til hins mesta óhagnaðar. Og hér er nú verið að setja fastar reglur um slík efni við opinbera starfrækslu, þar sem enn eru engar reglur. Það hefir engin regla verið á stærstu lögskrám hér í Reykjavík, það þekkjum við allir, og það hefir verið til hins mesta »trafala« að nota þær og »controllera« réttleik þeirra, eins og sagt er. En með þessu frv. fáum við skipulag á þær og tilgangurinn með frumv. er sá, að bæta úr því, sem bágur eru í — en leikur enginn.

Það blandast engum hugur um það, að um endilangt Ísland hefir það verið og er ennþá venja, að nefna menn að eins með skírnarnafni. Það kemur mjög oft fyrir, eins og háttv. þm. Dal. (B. J.) tók fram, að menn vita alls ekki föðurnafnið, þekkja manninn ekki undir öðru nafni en fornafni, t. d. Jón frá Hólum o. s. frv.

Sú venja, að nefna menn eingöngu með skírnarnafni, er orðin svo rótgróin hjá þjóðinni, að það væri stakasta ofbeldi á landsvana, að leiða það gagnstæða inn, eins og nokkrir menn, einkum hér í Reykjavík virðast hafa fyrir stafni. Fyrir slíku verður að stemma stigu, ekki eingöngu af því, að það er óþjóðlegt, heldur og vegna þess, að það er óhaganlegt.

Eg er alveg samdóma hv. þm. Dal. (B. J.) í því, að það væri full ástæða til þess að athuga og setja reglur fyrir hvaða ættarnöfn megi taka upp.

Hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) hefir í þessu efni einnig verið þeirrar skoðunar fyrir 30 árum síðan, því að hann lagði fyrir þingið 1881 frv. þess efnis, að hver sá maður, sem í leyfisleysi tæki sér ættarnafn skyldi gjalda alt að 500 kr. sekt. Nafnbótarskatt vildi hann líka hafa, 10 kr. á hvert atkvæði í orðinu. Síðan hefir þessi háttv. þm. verið í Ameríku, þar sem það er venja meðal landa vorra að skrumskæla svo nöfn sín, að enginn þekkir þau. Og því mun hann nú kominn á aðra skoðun, en fyrir 30 árum. Var þá vel á stað farið hjá hv. þm. og málið fullkomlega þess vert, að því væri gefinn vendilegur gaumur.

Eg man ekki afdrif málsins á þinginu 1881, »en hérna liggur bevísið« fyrir því, hvað háttv. þm. vildi þá.

Hann talaði og mörgum orðum um það, að frumvarp þetta gengi of nærri persónulegum rétti manna, en því er til þess að svara, að það gengur ekki nær persónulegu frelsi en frumv. þingmannsins 1881, og fer jafnvel skemra en hv. þm. fór þá, því að eg man ekki betur, en hann færi líka fram á það, að ekki skyldi leyfilegt að skíra börn nema ákveðnum nöfnum. Það situr því illa á þingmanninum, að vera að bera brigsl á okkur flutningsmenn þessa frumvarps. Annars væri ekki fjarri að setja inn í frumv. ákvæði um ættarnöfn og að hver maður, sem vildi taka upp nýtt nafn, skyldi kaupa leyfi til þess. Það er ekki hvað sízt ástæða til þessa einmitt nú, þar sem margir menn á seinni tímum hafa hlaupið í að taka upp ýms nafnskrípi. Hún mun alkunn sagan úr landsbankanum, þegar maður kom inn og bað um lán. Hann var spurður að heiti og kvaðst heita Stefán Loðmfjörð. Annar gæzlustjórinn, Eiríkur Briem, sagði, að ekki væri hægt að lána þeim mönnum, sem hvergi fyndust í nokkrum bókum, enda mundi Stefáni þessum hafa orðið torvelt að ná sér í skírnarvottorð með þessu nafni á. Það eru jafnvel dæmi til þess, að menn hafa tekið upp áður kunn nöfn og stolist þannig inn í aðrar ættir. Það er því ekki vanþörf á lagaákvæðum um það, að enginn megi breyta um eða taka upp ný nöfn án leyfis og eftir ákveðnum fyrirmælum Það eru líka dæmi til þess, að kunnum jarðanöfnum hefir verið breytt upp úr þurru. Menn hafa hlaupið að þessu eins og orfinu sínu; stundum hefir það verið auglýst og stundum ekki. Hér þarf líka fastar reglur um.

Eg vona nú, að háttv. deild taki máli þessu með þeirri skynsemd og alvöru, sem jafn merkilegu máli sæmir. Eg býst við, að þriggja manna nefnd verði kosin í það og það nái fram að ganga óbreytt, eða með skynsamlegum breytingum, sem frá nefndinni kunna að koma.