19.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1921 í B-deild Alþingistíðinda. (2313)

132. mál, stofnun húsmæðraskóla

Jóhannes Jóhannesson:

Eins og háttv. deild er kunnugt, hafa eigendur Eiðaskólans boðið landssjóði hann til eignar, með því skilyrði, að bændaskóla væri haldið þar áfram. En þetta hefir ekki fengið byr hjá nefnd þeirri, er kosin var í málið, þrátt fyrir ósk okkar þingm. Viljum við því ekki halda því til streitu, enda er það ef til vill ekki sanngjarnt að íþyngja landssjóði með að halda uppi skóla fyrir einstök héruð. Nefndin hefir skilið svo við mál þetta, að hún hefir lagt það til, að skólinn yrði gerður að húsmæðraskóla, ef Múlasýslurnar vilja ganga að því. Þessi eign er virt á 60 þús. kr. og er virðingin víst lág. Húsið sjálft t. d. er sett eftir því sem það kostaði sýslufélögin og þó er eg ekki viss um, að alt sé talið með, eins og t. d. vinnan við það frá skólabúinu. Á eigninni hvíla 20 þús. kr. Fylgja henni ýmsar tekjugreinar t. a. m. vextir af jarðeldasjóði, búnaðarsjóði Austuramtsins og búnaðarskólasjóði Austuramtsins. Eg ímynda mér, að eigendur skólans gangi að þessu tilboði alþingis, úr því að það vildi ekki taka tilboði þeirra.

Þá vil eg að eins minnast á stjórn skólans. Sýslunefndir Múlasýslna eiga samkvæmt 2. gr. frv. að kjósa einn af stjórnendum hans. En til þessa þyrftu sýslunefndirnar að halda sameiginlegan fund og væri slíkt kostnaður. Hygg eg því, að þær vildu afsala sér þessum rétti, og væri því æskilegt, að breytingartillaga kæmi fram um þetta atriði, er t. d. færi í þá átt, að búnaðarsamband Austurlands kysi þennan mann.