19.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1923 í B-deild Alþingistíðinda. (2315)

132. mál, stofnun húsmæðraskóla

Framsm. (Pétur Jónsson):

Eg vona að h. 2. þm. Hún. (B. S.) ætlist ekki til, að hann sé í frv. gegn því, að landssjóður reki bú á jörðinni. En eg hygg, að nefndin geti fallist á, að niðurlag 8. gr. frv., sem kveður á um heimild fyrir landssjóð að reka bú á jörðinni, sé felt niður, því að sú heimild er sjálfsögð hvort sem er.

Háttv. þm. talaði um, að æskilegt væri, að búið væri selt og komið í peninga og er eg honum samdóma um það. Ef stjórnin fær mann til þess að taka jörðina á leigu, er betra að selja búið. En nefndin hefir ekki viljað taka ákvæði um þetta, því að þetta verður væntanlega komið undir samkomulagi stjórnarráðsins og skólanefndar. Þess vegna getur verið athugavert að setja ákvæði um það í frv. Eg fyrir mitt leyti vildi haga þessu, eins og háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) stakk upp á. Þetta segi eg frá eigin brjósti, en ekki fyrir hönd nefndarinnar.