08.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1939 í B-deild Alþingistíðinda. (2332)

50. mál, landsbankalög

Hannes Hafstein:

Eg ætla ekki að svara ummælum háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) um það að óviðfeldið væri að »keppinautur landsbankans« sæti í peningamálanefndinni, sem jafnframt hefir veðbankafrumvarpið til meðferðar, enda þótt eg þykist vita, að hann muni hafa beint þessu skeyti til mín, þar sem eg er í stjórn Íslandsbanka, sem hann nú skoðar sem einhvern varg í véum, síðan hann sjálfur varð forstjóri landsbankans. Eg vil að eins geta þess, að mér finst það hálf hjáleitt og fáránlegt að heyra einmitt þennan háttv. þingm. láta í ljós þennan kala og úlfúð til Íslandsbanka, þann manninn, sem einna mest og áfjáðast hamaðist fyrir því, að Íslandbanki yrði settur á stofn, og honum fenginn seðlaútgáfurétturinn í hendur, og manna mest láði það gömlu bankastjórninni, að hún skyldi ekki verða himinlifandi yfir því, heldur vera svo þröngsýn, að skoða hann sem keppinaut.

Háttv. 2. þm. Rvk. (M. Bl.) lét í ljósi undrun sína yfir því, að ýmsir þingm. vildu vísa þessu máli til bankarannsóknarnefndarinnar. Það er mér óskiljanlegt, að háttv. þm. skuli furða sig á þessu, þar sem hann þó sjálfur telur það aðalatriði í frumvarpinu, að losna við gæzlustjórana, og játar, að aðalverkefni bankarannsóknarnefndarinnar sé að athuga, hvort ástæða hafi verið til þess að fara með gæzlustjórastöðurnar, eins og gert hefir verið seinasta ár, og þar með hvort fyrirkomulagið sjálft gefur tilefni til slíkra aðfara af landsstjórnar hálfu. Hann getur ekki látið vera að sjá, að frumv. er mótbragð móti því, að gömlu gæzlustjórarnir verði settir aftur inn í bankann, enda á frv. upptök sín hjá þeim mönnum, sem mest er um það hugað, að koma í veg fyrir það. Þetta út af fyrir sig, er ærin ástæða til að vísa frumv. til rannsóknarnefndarinnar.

Hinn háttvirti þingmaður sagði, að uppástungan um afnám gæzlustjóranna hefði komið fram á síðasta þingi og væri því engin nýung. En þetta er engin mótsönnun gegn því, að tilgangurinn með því að koma fram með þessa tillögu nú, sé sá, að grípa fram fyrir hendurnar á rannsóknarnefndinni og blanda sér inn í starfsvið hennar, að því er innsetningarmál gæzlustjóranna snertir. Þvert á móti liggur mjög nærri að líta svo á, að aðfarir stjórnarinnar gagnvart gæzlustjórum landsbankans, er nú eru til rannsóknar, sanni, að tillögurnar um afnám gæzlustjórasýslananna 1909, hafi í rauninni að eins komið fram til þess að hrinda úr sessi þeim mönnum sem í þessar stöður voru skipaðir af þinginu, og gera landsstjórnina og hennar menn einvalda yfir bankanum; þegar það mistókst, að fá þessu framgengt með lögum, var það gert með valdi, og nú, þegar það dugar ekki lengur, þá á að reyna aftur að breiða yfir gerræðið og fyrirbyggja afleiðingarnar með því, að fá þingið til að samþykkja lög um að stjórnin skuli eftirleiðis hafa þau tögl og hagldir á bankanum, sem hún hefir tekið sér sjálf haustið 1909 og haft til þessa — alt ein samanhangandi milla.