08.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (2341)

52. mál, veðdeildarlagabreyting

Flutnm. (Björn Kristjánsson):

Það er von mín, að enginn hvellur verði gerður út af þessu máli, eins og næsta máli á undan, og að það verði ekki sett í samband við afsetningu gæzlustjóranna eða blandað saman við þá.

Frumv. þetta fer fram á, eins og menn sjá, að breyta veðdeildarlögunum frá 1900. Þau og öll seinni veðdeildarlög gera ráð fyrir, að í veðdeildina megi greiða aukaafborganir og skuldir með bankavaxtabréfum deildarinnar eftir ákvæðisverði. Eins og menn vita, er ekki meira dregið út af veðdeildarbréfum en svo, að sú upphæð samsvari því, sem afborgast af lánum veðdeildarinnar. Notarius publicus eða hans umboðsmaður draga bréfin út einu sinni á ári, og hann dregur ekki út hærri upphæð en hefir innborgast á árinu. En eins og eg tók fram, þá er lántakanda veitt heimild til þess að borga lánin með veðdeildarbréfum eftir ákvæðisverði og veðdeildin verður að kaupa þau og liggja með þau, og getur það sett hana í óþægilega klípu. Veðdeildin hefir enga peninga nema varasjóð, en hann næði skamt, ef margir fyndu upp á því, að borga skuldir sínar með veðdeildarbréfum, enda er engin nauðsyn á því. Þetta atvik hefir einmitt komið óþægilega fyrir í ár. Einn maður, sem ekki fékk lán, eins hátt og honum líkaði, fann upp á því, að borga 25,000 kr. lán, sem hann þá hafði nýlega fengið, með veðdeildarbréfum. Og nú situr deildin uppi með þau. Það ber einnig að líta á það, að þessi regla mun eigi vera almenn annarsstaðar, og þó svo væri, stendur þar öðru vísi á, þar sem nógur markaður er fyrir slík bréf. Ef bréfin fengu »kurs«, þá gætu féglæframenn fundið upp á því, að setja verð þeirra niður svo og svo mikið, keypt þau fyrir lítið verð og fengið svo fullvirði fyrir þau með því að taka að sér greiðslu veðdeildarlána í bankanum. Fyrir þessu stendur veðdeildin berskjölduð. Og þó hún ekki tapaði beint sjálf við þessar greiðslur, þá yrðu verðbréf hennar í óáliti og lántökur áfram óframkvæmanlegar.

Eg vona menn sjái nú hættuna, sem af þessu gæti leitt. Ef háttv. þm. þykir ástæða til þess að athuga málið í nefnd, þá má annaðhvort vísa því til peningamálanefndarinnar eða setja sérstaka nefnd í það.