10.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1946 í B-deild Alþingistíðinda. (2347)

52. mál, veðdeildarlagabreyting

Jón Magnússon:

Eg vildi gera fyrirspurn til háttv. flutningsm. Er það hugsunin, að ákvæðið nái til þeirra manna, sem þegar hafa fengið lán? Eg veit, hvernig svarið muni verða Til þeirra manna, sem hafa fengið lán, er ekki hægt að láta þetta ákvæði ná. Þeir hafa fengið lánin með þessum kjörum, er veðdeildarlögin nú ákveða, og þeim kjörum er ekki hægt að breyta. Ef þetta atriði væri borið undir dómstólana, mundu þeir eflaust halda uppi rétti lántakendanna. En úr því það getur ekki náð til þeirra, sem lán hafa fengið, þá er þetta frumv. fremur þýðingarlítið. Eg var ekki viðstaddur, þegar flutningsm. reifaði málið, svo eg þekki ekki ástæður hans. Mér er kunnugt um að tilfelli, sem kom fyrir í vetur, var dálítið óþægilegt fyrir veðdeildina eða bankann, og vera má að hafi orðið tilefni til frumv., en eg hygg vel megi fyrirbyggja það, að slíkt hið sama komi fyrir aftur. Mér finst það ekki nema sanngjarnt, að veðdeildin taki á móti veðdeildarbréfum sama flokks sem fullgildri borgun, er ræða er um sérstakar afborganir, er ekki eru áskildar. Eg veit ekki betur, en að samskonar ákvæði séu hjá veðdeildum eða slíkum stofnunum hjá öðrum þjóðum. Eg get því með engu móti gefið frumv. mitt atkvæði.