10.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1948 í B-deild Alþingistíðinda. (2349)

52. mál, veðdeildarlagabreyting

Jón Magnússon:

Eg veit ekki, hversu óeðlilegt þetta ákvæði er, en eg veit, að það er til annarsstaðar. Eg hefi hér eitt eintak af veðdeildarlögum Revisionsbankans í Kaupmannahöfn og þar er það beint ákveðið, að lántakendur geti borgað lánin aftur, með sama flokks bréfum og bankinn hefir goldið þeim lánin með, þegar ræða er um ótilskildar afborganir. Eg skal samt ekki þrátta um það við háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.), hvort slíkt ákvæði sé í öllum veðdeildarlögum annars; eg býst við að hann sé um það fróðari en eg, en undarleg tilviljun er það, að það skuli einmitt vera í þeim einu veðdeildarlögum, er eg sem stendur hefi komist yfir.

Eg skal ekki vera svo mjög á móti því, að málinu verði vísað til nefndar. En eg get ekki horfið frá þeirri skoðun minni, að rétt sé að halda því ákvæði, sem frumvarpið fer fram á að burtu sé felt.