10.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2064 í B-deild Alþingistíðinda. (2519)

55. mál, bréfhirðing og aukapóstar

Pétur Jónsson:

Eg var ekki svo heppinn að vera viðstaddur, þegar háttv. þm. N.-Ísf. mælti fram með þessari till. sinni, svo að mér er ekki fullkunnugt um, hvað fram hefir komið í málinu. En eg skal benda á það, að það er ekki heppileg aðferð, að alþingi fari að samþykkja fyrirmæli um póstafgreiðslu hér, bréfhirðingu þar, aukapóst og annað þess konar, án þess slíkt komi þá frá póstmeistara, hvað þá þegar þetta er á útkjálkum, þar sem fæstir þingmenn þekkja til, en póstmeistari miklu betur. Hví er verið að fara til þingsins með

annað eins og þetta? Er ekki einfaldast að snúa sér til póststjórnarinnar eða landstjórnarinnar? Póstmeistarinn er manna kunnugastur öllum póstleiðum, og veit hvað hægt er að gera í þessum efnum. Því að eins ætti þingið að skifta sér af slíku, að póststjórnin eða landstjórnin hefði gert einhverjum rangt til, og ef það yrði bert, þá væri öðru máli að gegna. En um það hafa engar kvartanir heyrst. Það eru auðvitað takmörk og þurfa að vera fyrir því, hve mikið landstjórnin vill leggja út í af þess konar. En eg veit þó, að póststjórnin hefir verið liðleg í þeim sökum og fer árlega fram á aukið fé til umbóta og viðauka í þessum efnum.

Það getur vel verið, að efni þessarar tillögu sé sanngjarnt og réttmætt út af fyrir sig; um það geta fæstir þingmenn dæmt. En að þingið samþykki hana getur ekki þýtt annað en að þrýsta póststjórninni til að láta þetta sitja fyrir öðru, sem vera kann enn þá sanngjarnara og sjálfsagðara, en henni getur maður trúað til mestrar yfirlitsþekkingar og réttlætis í þessum efnum.