03.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2082 í B-deild Alþingistíðinda. (2553)

159. mál, millilandaferðir

Jón Jónsson 1. þm. N.-Múl.:

Fyrir mér hefir vakað svipað sem háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) í viðaukatill. mínum, að illt sé, að skip, sem njóta styrks af landssjóði, skuli ekki skyld að koma á helztu hafnir landsins, t. d. Reyðarfjörð. Þangað liggur aðalvegur og verzlun er þar mjög að aukast. Ennfremur Vopnafjörður; þangað koma Thoreskipin ekki, nema þau hafi nægilegan farm, og er það ný stefna, því að sameinaða félagið lét sín skip jafnan koma þar samkvæmt áætlun og gerir raunar enn. Þetta getur verið mjög bagalegt farþegum, að vita ekki, hvenær skipin koma við og þurfa að hrekjast þannig hafna á milli. Kaupstaðurinn er fjölmennur og í viðgangi. Höfn góð og ekkert út á að setja nema í hvassviðrum, svo sem víða annarstaðar. Er ilt að sneiða svo fram hjá merkustu stöðum landsins, auk þess sem undir hælinn er lagt, að einstaklingar geti haft skipanna not.

Á Borgarfirði eystra er höfn ekki góð, en þó má oft skipa þar upp vörum og með því þar er fjölmenni, þá ættu skipin að koma þar við, eftir því sem hentugleikar leyfa. Þetta, sem hér er farið fram á, er svo sanngjarnt, að þau félög, sem njóta styrks úr landssjóði til ferðanna, ættu að kappkosta að gera landsmönnum eins þægilegt og unt er bæði með vöruflutninga og fólksflutninga.