06.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Ráðherra (Kr. J).; Eg stend upp vegna brtill. þeirrar sem eg er flytjandi að fyrir hönd stjórnarinnar. Eg þarf lítið um hana að segja vegna þess að háttv. framsögumaður hefir þegar getið hennar og skýrt, hvernig á henni stendur. Að loknu síðastliðnu ári fékk stjórnarráðið skýrslu yfir skrifstofukostnað vegagerðarverkfræðingsins. Þennan reikning hefi eg skoðað, hann er sundurliðaður og mjög nákvæmur og sýnir að verkfræðingurinn hefir eytt kr. 129,98 meira en þeim 500 kr. sem veittar voru til þess á fjárlögunum. Kostnaðurinn verður þá alls um 630 kr. fyrir árið sem leið. Eg hefi litið yfir reikninginn og eg get ekki betur séð en að alt, sem þar er tilfært, heyri til þeim skrifstofukostnaði, sem hér er um að ræða. Eg get því ekki séð að komist verði hjá að veita þessa upphæð. Það hefir verið minst á það áður, að farið var fram á það á síðasta þingi að veita landsverkfræðingnum 700 kr. í skrifstofufé, en að þingið færði það niður í 500 kr. Ef verkfræðingurinn á að geta notið sín og komið að því gagni, sem til er ætlast, þá verður hann að hafa skrifstofu og kostnaðinn til skrifstofuhalds verður að greiða úr landssjóði, en eigi af launum verkfræðingsins. Eg óska að háttv. deild samþykki þessa tillögu mína.