22.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1587 í B-deild Alþingistíðinda. (2800)

139. mál, útrýming fjárkláðans

Pétur Jónsson:

Af því að engar umræður urðu um þetta frumvarp við l. umr., kemst eg ekki hjá því, að taka hér fram nokkrar almennar athugasemdir, sem skýra það, hvers vegna eg skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara, þótt eg að vísu geti að miklu leyti skírskotað til almennra aths. h. þm. A.-Sk. (Þ. J.).

Þegar eg sá fyrst þetta frumv., skal eg játa það, að mér þótti ekki ráðlegt að fara nú að hleypa sér út í þann kostnað, sem leiðir af reglulegri útrýmingarböðun. Bygði eg það á því, að í mínu héraði hafði tekist svo vel böðunin síðast, að eg hugði að nú væri alveg búið að sigra þessi fáu kláðatilfelli, sem gert höfðu vart við sig, síðan aðalútrýmingartilraunin fór fram í nokkrum héruðum. Mér hafði skilist svo í samtali við Myklestad, þegar hann var að byrja afskifti sín af þessu máli, að hann vildi reyna að útrýma kláðanum með sem minstum kostnaði, en þó með tóbaki; það eitt áleit hann örugt, og komast mundi mega af með eina rækilega böðun, með 8 daga innistöðu.

Eg sá nú, eins og aðrir, að eitt bað mundi ekki vera fyllilega öruggt, því að ef menn vilja vera vissir um að drepa eggin á hverri kind, þá þarf að baða tvisvar. Þetta kannaðist líka Myklestad við, en sagði, að eftir eina duglega böðun myndi kláðinn ekki koma upp nema á fáum stöðum og mjög takmörkuðum svæðum, og þá væri hægt að taka fyrir kverkar honum jafnótt og upp kæmi. Eg skal nú ekki segja, hvort þetta hefir verið vitlaust, en hitt veit eg, að það er unt að útrýma honum, því að það hefir verið gert alveg í Þingeyjar- og Eyjafjarðarsýslum, og var hann þó slæmur þar áður. Það getur skeð, að þar komi upp kláði síðar, en hann er þá kominn annarstaðar að, því að á þeim tveim stöðum á þessu svæði, þar sem vart varð við hann eftir aðalböðunina, var þegar tekið af skarið, og þessi litli vottur drepinn. Þess vegna er eg á því, að ef aðferð Myklestads hefði alstaðar verið beitt svikalaust, þá hefði það heppnast, að útrýma kláðanum. Eg tek þetta fram af því, að menn álíta alment, að sú aðferð hafi verið alvitlaus. Henni var ekki rækilega framfylgt og þess vegna kom hún ekki að gagni, en það sýnir, að okkur er ekki trúandi til slíkra framkvæmda, og að við getum því ekki verið öruggir um útrýmingu, hvort sem beitt er þessari aðferð eða hinni. Úr því að tilraun Myklestads heppnaðist ekki, álít eg því varlega leggjandi út í þann kostnað, sem þessi nýja tilraun hefir í för með sér. En á hinn bóginn álít eg samt, að nú sé hægra en áður að halda kláðanum í skefjum. Að minsta kosti held eg, að aldrei verði hætta á því, að hann komi að verulegu meini héðan af, þar sem eg þekki til í mínu nágrenni. Þar eru menn búnir að taka upp þær aðferðir til þess að bæla hann niður, áður en hann gerir skaða, að hann er þar ekkert voðalegri en t. d. lús á fénu.

En þótt þetta sé nú mín skoðun, þá hafa þó nánari upplýsingar um það, hvar kláði hefir komið upp, og svo þessar síðustu kláðafréttir gert það að verkum, að eg mun ekki setja mig upp á móti því, að gerð sé ný tilraun, og álít eg þá rétt, að fylgja sem fastast fyrirmælum dýralæknis, því að það hefir ekkert að þýða, þótt við hinir viljum hafa það svo eða svo, það verður að gilda, sem stjórnarvöld og fræðimenn í þessari grein segja. Það verður að hafa eining í ráðum og framkvæmd. Eg vil því ekki fara fram á það að breyta þessu frv. í neinum verulegum atriðum, eða taka upp aðra aðferð, enda þótt mér hefði fundist að hægt væri að fara öðru vísi að þessu, og kosið, að ákvæðin væru nokkuð mildari, þar sem nú er þó víða alveg kláðalaust. Eg vil enga veilu í þessu hafa, úr því að út í þetta er komið, og minn fyrirvari átti því alls ekki að þýða það, að eg mundi snúast á móti frv., heldur mun eg yfirleitt fylgja nefndinni, þótt eg geri þessar athugasemdir.

Eg býst nú við að það sé svo, að mörgum manni þyki leitt að taka mikinn kostnað upp á landssjóð, eins og sakirnar standa. Eg hefði líka helzt kosið, að bændur borguðu sjálfir kostnaðinn. En undir því er mest komið að umsjónarmenn með böðunum og baðarar í sveitunum séu duglegir og trúverðugir menn, og er mest trygging fyrir því, ef þeir eru skipaðir af stjórnarvöldunum og taka laun sín að miklu úr landssjóði. Þá eru þeir óháðir og vel valdir. Aðalhindrunin fyrir því að almenn böðun komi að haldi er sú, að hún sé ekki nógu trúlega framkvæmd að öllu leyti og fullkomin sótthreinsun jafnframt. En sótthreinsunin er til þess að drepa síðasta kláðamaurinn, og á það er eg vantrúaður. Tvíböðunin mun reynast »rationel«, ef ekki er svikist um, en þessi sótthreinsun er vafasöm eins og dýralæknirinn hugsar sér hana. Þar virðist mér vera engu minni en hjá Myklestad.

Viðvíkjandi tillögu háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) um það, að allur kostnaður skuli greiðast úr landssjóði, hefi eg það að segja, að eg mun þar fylgja nefndartillögunum.