18.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Kristinn Daníelsson:

Eg stend aðallega upp til þess að falla frá orðinu. Það eru svo fáir inni, að eg sé ekki ástæðu til að minnast á ýms atriði fjárhagsástandinu viðvíkjandi, sem eg ætlaði að gera, og það því fremur sem eg í næsta máli mun fá tækifæri til þess. Annars lýsti eg afstöðu minni til þessa máls hér við fyrstu umræðu, svo menn munu fara nærri um hvernig eg greiði atkvæði. Eg skal aðeins leyfa mér að minnast á br.till. hv. 5. kgk. þm., og gera grein fyrir, að eg einnig mun verða á móti henni. Eg álít hana beint spor í áttina til að rjúfa þann varnargarð, sem við vildum byggja á síðasta þingi. Mér dettur í hug sagan um litla drenginn á Hollandi, sem allir kannast við. Hann var á ferð þar meðfram flóðgarðinum og sá, að gat var komið á hann og stakk fingrinum í það. Hann vissi, að þó að gatið væri lítið, mundi það stækka ef ekki væri að gert og vatnið flæða yfir landið og valda tjóni og skaða. Við hlóðum þennan varnargarð á síðasta þingi, en tillaga háttv. 5. kgk. þm. fer fram á að gera seitlugat á vegginn. Nú vil eg með atkvæði mínu leggja lófann að til að byrgja það gat. Mér finst að hinu háa alþingi — þingið á að vera hátt í þjóðarinnar augum — sæmi bezt að standa við gerðir sínar, þangað til það fær nýja bendingu frá þjóðinni með nýjum kosningum.