15.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

92. mál, brúargerð á Jökulsá

Lárus H. Bjarnason:

Þá leggur maður út í Jökulsá eða Fúlalæk, eins og eg vil heldur kalla ána á þessu stigi málsins, eftir gusuna úr „Fúlalæknum“ okkar. Eg skal játa það með háttv. flutningsmanni, að Jökulsá sé oft ekki greið yfirferðar; mislynd eins og gengur og gerist og nýjustu dæmin sanna. En þetta mál hefir fleiri hliðar, er þarf að athuga. Áin mun sem stendur ekki fjölfarin, en hinsvegar mundi brúin kosta mikið fé, um 80 þúsundir, og það sem verst er, ef satt er, að ilt muni vera að finna örugt brúarstæði. Háttv. flutningsm. ætlast að vísu ekki til, að féð verði veitt nú á fjárlögunum; en ef að líkindum lætur, mun ekki lengi dragast fjárveitingin, ef lögin ganga fram. Eða svo fór það um Jökulsá í Axarfirði, er samskonar aðferð var höfð við. Eg vil því leyfa mér að stinga upp á 3 manna nefnd.