24.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

14. mál, heyforðabúr

Gunnar Ólafsson:

Háttv. framsögum. hefir alveg misskilið ummæli mín um þetta mál. Mér er það ljóst, að lög þessi eru sem stendur að eins heimildar lög, en það sem eg óttast er það, að þau geti því miður orðið að þvingunarlögum, sumstaðar. Viðvíkjandi kostnaðarhliðinni, þá er það ljóst, að hann getur orðið æði mikill, ef bændur eru forsjálir og nota ekki heyforðabúrin, sem og vonandi fæstir mundu gera. En þá borgar landssjóður og hreppssjóður fyrningu eða geymslu óþarfra heyja, sem engum koma að gagni og sem aldrei gætu komið að nokkru verulegu gagni eða bjargað, ef almenn heyþrot yrðu, því að sennilega yrði það ekki nema tiltölulega örlítil heyhrúga, sem þessi forðabúr geymdu. Ef bændur settu á heyforðabúrin, þá sleppur auðvitað landssjóðurinn. En það álít eg vera hið mesta skaðræði, ef nokkrir bændur lentu út í það að setja á heyforðabúrin. Að svo mæltu skal eg ekki fjölyrða meira um mál þetta að sinni.