31.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

22. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Framsögum. (Jósef Björnsson):

Þetta frv., er hér liggur fyrir, fer fram á það að lækkuð séu lög ákveðin eftirlaun ráðh. að töluverðum mun, úr 3000 kr. niður í 1000 kr. Að því er snertir þennan tilgang frv., að lækka eftirlaun ráðherra, hefir nefndin ekki getað orðið á eitt sátt. Eins og sjá má af áliti nefndarinnar, hefir hún klofnað í meiri og minni hluta. Meiri hluti hennar leggur til, að frumv. þetta verði samþ., en minni hlutinn að það verði felt. En það er engin ný bóla, að menn greini á um þetta mál. Það hefir verið svo frá því að fyrst var tekið að ræða það. Og í fyrstu greindi menn ekki einungis á um upphæð eftirlauna ráðherra, heldur einnig hvort þau ættu yfirleitt að vera nokkur eða engin. Háttv. 5. kgk. þm. tók það fram á síðasta þingi, að hann hefði mælt á móti því á þingi 1909, og síðan í ritgerð í Andvara árið eftir, að ráðherraembættinu fylgdu nokkur eftirlaun. Og á þingi 1903 mælti þáverandi þingm. Snæf. (núv. 5. kgk.) á móti eftirlaunum ráðherra í Nd. þegar málið var til umr. þar. Nefnd sú, er skipuð var til að íhuga málið í Nd. á því þingi, lagði til, að eftirlaun ráðherra skyldu ákveðin samkvæmt hinum almennu eftirlaunalögum, en mættu þó aldrei nema meiru en 4000 kr. En þá kom fram br.till. frá þm. Norður-Múlas. um að færa hámarkið niður í 3000 kr. og sú varð raunin á, að þessi tillaga var samþykt. Var það talið tillögunni til meðmæla, að ástæða væri til að draga úr þeim kostnaði, sem eftirlaun ráðherra mundu ella baka landsjóði. Tóku nokkrir þingm. í þann streng, og ekki sízt þáv. þm. Snæf. að lækka bæri eftirlaunin, með því að það væri spor í rétta átt, nefnilega þá átt, að þau væru engin. Þetta mál kom svo fram á þingi 1909, og var þá nokkuð á reiki. Í fyrstu var farið fram á það, að eftirlaunin féllu burt, en að laun ráðherra væri í þess stað færð upp um 2000 kr. Á móti þessu var það undir eins mælt að það gæti ekki samrýmst stjórnarskránni, og var því frumv. tekið aftur. En þá kom það aftur fram í þeirri mynd, að eftirlaun ráðherra yrðu lækkuð niður í 2000 kr., og skyldi hann njóta þeirra í jafn mörg ár og hann hefði verið í embætti. Við meðferð málsins kom enn fram sú tillaga, að eftirlaunin skyldu lækkuð enn meir, jafnvel niður í 1000 kr., en launin aftur hækkuð. Að lokum varð niðurstaðan í Nd. 1909 sú, að eftirlaun ráðherra skyldu vera 2000 kr. á ári, og standa í jafnmörg ár og hann hefði verið í embætti. Hér í Ed. náði frv. ekki fram að ganga. Það var tekið út af dagskrá, og urðu það endalok þess á því þingi. Nú kom frumv. fram á ný í Nd., og eins og nefndarálitið ber með sér, kom það fram þar í fyrstu í þeirri mynd, er það var síðast búið að fá á þingi 1909. En við meðferð málsins hefir frumv. tekið breytingum og komist í það horf, sem það nú er í, á þgsk. 181, sem sé að eftirlaun ráðherra skuli vera 1000 kr. á ári æfilangt. Jafnframt er í sömu gr. frumv., 1. gr., mælt svo fyrir, að ráðherra hafi þann eftirlaunarétt óskertan, er fylgir því embætti, sem hann hefir verið í, ef hann hefir verið embættismaður áður, en hafi þá, svo framarlega sem embættiseftirlaun hans nema eigi minna en 1000 kr., ekki rétt til frekari eftirlauna. Nú er það augljóst, að verði frumv. samþykt, getur ráðherra samkv. þessari gr., hafi hann verið embættismaður áður, ekki fengið hærri eftirlaun en því embætti tilheyra, nema þau nái eigi 1000 kr. En þá er það spurning, hvernig á það bæri að líta frá lögfræðislegu sjónarmiði, ef svo bæri við, að ráðherra, sem verið hefir embættismaður áður, tæki aftur við sama embætti, eða einhverju öðru, hvort honum bæru þá ráðherra eftirlaun jafnframt embættislaunum sínum. Eg skýt þessu að eins fram til athugunar, og býst við, að hæstv. ráðherra eða einhver annar lögfræðingur í deildinni minnist á þetta atriði. Annars skal eg ekki fjölyrða mikið meir um málið að sinni. Nefndarálitið ber það með sér að ástæður meiri hluta nefndarinnar til að vera frv. samþykkur eru einkum þrjár. Í fyrsta lagi álítum vér að telja megi líklegt, að það verði tilfinnanleg byrði fyrir landssjóð með tímanum, ef látið er sitja við þau ákvæði, sem nú gilda um eftirlaun ráðherra, einkum þegar þess er gætt, að ráðherra, sem verið hefir embættismaður, bera, samkv. þeim ákvæðum, ekki að eins eftirlaun sem ráðherra, heldur einnig þau, sem fylgja því embætti, er hann hafði áður, svo sem reynsla er þegar fengin fyrir um annan hinna fráförnu ráðherra. Sé ennfremur tekið tillit til þess, að ráðherraskifti verða hér sennilega alloft, eins og í öðrum löndum, þá er það bersýnilegt, að sú byrði gæti orðið allmikil. Nefndin vill koma í veg fyrir, að svo verði, með því að samþykkja frumv. Önnur ástæða nefndarinnar er sú, að hún verður að álíta þau eftirlaun, sem frumv. gerir ráð fyrir, viðunandi eftir atvikum. Hafi ráðherra verið í embætti áður, þá á hann heimting á að halda þeim eftirlaunum, sem því embætti fylgja, og hafi hann ekki verið embættismaður, þá telur nefndin líklegt, að hann eigi að jafnaði afturkvæmt að þeirri atvinnu, sem hann hafði áður, og að 1000 kr. megi þá teljast viðunandi eftirlaun. Þriðja ástæða nefndarinnar til að mæla með frv. er sú, að fram hafa komið sterkar óskir frá þjóðinni um afnám ráðherraeftirlaunanna. Að sjálfsögðu ber alþingi því að eins að taka tillit til slíkra

óska, að það telji þær réttmætar og heillavænlegar fyrir landið. En með því að þessar óskir verða, að dómi nefndarinnar, ekki taldar annað en heillavænlegar, þá finst henni sjálfsagt, að taka að minsta kosti það tillit til þeirra að lækka eftirlaun ráðherra niður í 1000 kr.