10.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Jósef Björnsson:

Ástæðan til þess, að eg kom fram með breytingartillöguna á þingskali 598 er sú, að skólastjórinn á Hólum hafði skrifað stjórninni um fjárveitingu þessa til aðgerðar á skólahúsinu, en stjórnin hafði ekki séð sér fært að taka neitt upp nema óumflýjanlegu útgjöldin.

Skólastjórinn vissi ekki annað en að stjórnin hefði tekið þetta til greina, og gerði því engar frekari ráðstafanir þessu viðvíkjandi. En er honum varð kunnugt, að stjórnin hefði ekki getað orðið við þessu nauðsynjamáli, þá skrifaði hann mér, og bað mig að reyna að koma þessu í lag, þar sem óflýjandi nauðsyn væri að endurbæta húsið, sem nú er ekki orðið fært til íbúðar, enda óhagur mikill að bíða með það verk að kostnaðinum til, því það skilja allir, að ódýrara er að endurbæta strax og þörf krefur, en að geyma það og láta skemdirnar aukast og margfaldast.

Eg sneri mér því til smiðanna, sem voru á Hólum í fyrrasumar, og bað þá um álit sitt um, hvað þyrfti að gera við húsið og hvað það mundi kosta. Þetta gerði eg í samráði við háttv. stjórn og hæstv. ráðherra.

Gerðu þeir áætlun nú aðeins um það sem nauðsynlegast var að gera, því á það lagði stjórnin áherzlu, að kostnaðurinn mætti ekki verða mikill. Það sem þeir lögðu aðaláherzluna á að gera þyrfti var að breyta stigunum. Nú liggur einn stigi í miðju húsi upp um öll loft. Ef eldur kæmi upp í húsinu neðarlega, gæti orðið örðugt um alla mannbjörg úr húsinu, nema um glugga, og gæti slík björgun verið miklum örðugleikum bundin. Með leyfi forseta vildi eg lesa hér upp kafla úr bréfi skólastjóra, um þörfina á viðgerð hússins. Hann segir svo:

„Gamla húsið þarf mikilla endurbóta við, til þess að það geti orðið viðunandi bústaður fyrir nemendur og kennara, sem ætlað er að búa í því. Gluggar eru allir mjög illa um búnir — grindurnar orðnar fúnar og gisnar, svo að í úrkomutíð streymir regnvatn alstaðar inn og bleytir og feygir gluggakisturnar. Ýmsar fleiri aðgerðar eru og nauðsynlegar, svo sem á hurðum, endbætur á máli og endurnýjun ofna, því margir þeirra mega ónýtir heita“.

Með hliðsjón til þessa fer eg fram á að veitt verði 3000 krónur til aðgerða. Eg legg aðaláherzluna á stigana, eins og smiðirnir. Gluggarnir eru og mjög lélegir. Húsið er ekki málað, nema að mjög litlu leiti, en málning mjög nauðsynleg eins og smiðirnir segja, ef ekki á alt húsið að fúna niður. Eldfæri öll eru í mesta ólagi. En án þess að eg fari frekar út í þetta eða þreyti háttvirta deild á upptalningum um hvað aflaga fer, vil eg geta um eina ástæðu, sem mælir með því, að þetta sé gert nú. Smiðirnir, sem bygðu nýja húsið, hafa ekki lokið því að fullu og fara því í vor norður; verður því miklu ódýrari vinna á þessu, ef það er gert um leið.

Annars er áætlunin gerð nokkuð af handa hófi, eins og háttvirtur formaður fjárlaganefndarinnar gat um; en þar sem hæstvirtur ráðherra gat þess, að hann vildi ekki, að hér væri gert nema það allra nauðsynlegasta, þá hefi eg tekið upphæðina svo lága sem eg áleit, að frekast mætti. Eg skal að síðustu geta þess, að í þessu húsi er nú íbúð allra nemanda skólans og tveggja kennara, yfir höfuð íbúð fyrir flest það fólk, sem við skólann er. Í nýja húsinu er íbúð skólastjóra. Þar eru kenslustofur og söfn skólans. Það er því knýandi þörf að gert sé við gamla húsið, sem er að allra kunnugra manna áliti alls óviðunandi íbúð eins og nú stendur.

Eg er hinni háttvirtu fjárlaganefnd þakklátur fyrir undirtektir hennar til þessa máls, og vona að háttv. deild samþykki fjárveitingu þessa.