03.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

130. mál, tollalög

Ráðherra (Kr. Jónsson):

Því fer fjarri, að eg sé því mótfallinn, að útlend orð séu notuð í íslenzku máli, ekki síst, ef þau eru þannig, að þau geti vel sameinast íslenzkunni. En orðið „kílógram“ getur aldrei vel samþýðst íslenzkri tungu. Það mundi innan skamms breytast þannig, að úr því yrði kílgram eða annað slíkt orðskrípi, á líkan hátt og orðið episcopus hefir breyzt í biskup. Þegar vér nú eigum til svo ágætt orð sem tvípund, er sjálfsagt að halda því. Og úr því að orðið mælir er haft í nafnaskrá stjórnarinnar, sé ekki heldur ástæðu til þeirrar breytingar, sem hér er farið fram á, að því er það orð snertir.