22.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

83. mál, kosningaréttur og kjörgengi

Kristinn Daníelsson:

Eg stend upp til þess að taka í sama streng og þeir háttv. deildarmenn, sem á undan mér hafa talað. Eg vil að eins bæta því við, að eg legg enga áherzlu á þetta atriði sem háttv. 2. þm. Skagf. nefndi, að konur hefðu ekki enn fengið fult jafnrétti við karlmenn. Það gerir hvorki til né frá í þessu sambandi. Eg vil veita konum fult jafnrétti við karlmenn, en eg vil alt að einu láta þær vera lausar við þessar skyldur, sem hér er ætlast til að verði lagðar á þær. Til þess liggja eðlilegar ástæður. Stöður kvenna í þjóðfélaginu eru þannig, sumpart vegna langvarandi venju, að þær eiga miklu óhægra með að inna af hendi skyldustörf, heldur en karlmenn. Eg veit það að vísu að sumar konur eru meðmæltar breytingu þeirri, sem frumv. fer fram á, af því, að þær búast við að það mundi flýta fyrir því, að konum verði veitt fult jafnrétti í öðrum greinum. En eg sé enga ástæðu til að það þurfi að fara saman. Þegar verið er að tala um í þessu sambandi, að réttindi og skyldur verði að fylgjast að, þá gleyma menn því, að þetta er ekki föst regla í íslenzkum lögum. T. d. hefir 60 ára maður rétt til að kjósa til sveitarstjórnar, en hann er ekki skyldur til að taka móti kosningu sjálfur. Á því sézt að þetta tvent þarf ekki að fara saman.

Eg legg til að frv. verði felt, en skal þó ekki setja mig á móti því, að nefnd verði skipuð í málið fyrst, og felt síðan, ef það þykir sæmilegri dauðdagi.