06.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

120. mál, farmgjald

Lárus H. Bjarnason:

Það stendur enn óhrakið, sem eg sagði áðan um ábyrgðina á þessu máli, og þarf eg því ekki að endurtaka það. En eg vil víkja nokkrum orðum að Vestmanninum, sem situr hér á móti mér. Eg hafði annars ekki hugsað mér að „spandera“ miklu púðri á hann. Ræður hans eru oftast ekki svaraverðar, enda hefi eg hingað til alt af leitt hjá mér að svara þeim. Það er ekki alt af hægt að segja, hvort þær eru sprotnar af vanþekkingu, framhleypni eða flokkstrygð. Um suma menn má alt af segja, hvað valda muni orðum þeirra og athöfnum, en þar sem greindin er lítil, er alt af erfiðara að skera úr, hvort þeim ráði getuleysi eða góðviljaleysi. Maðurinn hefir á þessi þingi gert mest að því að tala um mál, sem hann hefir ekkert vit á, svo sem háskólann, vísindi, loftskeyti o. fl. Það minnir mig á sumar skepnur, sem geta ekki þagað við því sem þær ná ekki til, eins og ein ónefnd skepna, sem hefir þann sið að spangóla að tunglinu. Allra mest hefir hann talað um háskólamálið. Það láir honum enginn, þó að hann hafi ekkert vit á því, en hinu hefði hann átt að hafa vit á, að þegja um það. Mér þykir ekkert undarlegt, þó hann veitist helzt að mér, því að sams konar skepnu og eg mintist á áðan er gjarnast að upplyfta sinni röddu, þegar betur búnir menn ríða í hlað en heima fyrir eru. Að öðru leyti læt eg mér nægja að mótmæla því, að eg hafi harmað það, að bannfrestunarfrv. var felt, En hitt kannast eg við, að mér hefði eftir atvikum verið kærara að framkvæmd aðflutningsbannsins hefði verið frestað um stund, ekki af óvináttu við bannlögin, heldur þvert á móti, af því eg hræddist að tekjumissirinn mundi verða lögunum að fótakefli, ef ekki væri fundinn annar spónn í staðinn, áður en lögin gengi í gildi.

Hv. þm. Ak. vil eg benda á, að það er ekki rétt að ? kjósenda á landinu hafi kosið bannlögin.

(Sig. Hjörleifsson: Eg sagði ?).

? er heldur ekki rétt. Af greiddum atkvæðum voru ? með bannlögunum, en að eins ? allra kjósenda. Því var slegið fram áðan af einhverjum, að minni hlutinn hefði engu síður en meiri hl. stuðlað að því, að hleypa útgjöldunum á fjárlögunum upp. Þetta er ekki rétt. Minni hlutarnir hafa ekki annað á samvizkunni en rúmar 13 þús. kr. fjárveitingu til háskólans, og þurfum við ekki að bera rjóða kinn fyrir að meta sjálfstæði landsins svo mikils. Eg bjóst ekki við, að hv. þm. Ak. mundi fara að fitja upp á þingræðisbrotinu aftur, þegar jafnvel „Ísafold“ treystir sér ekki til að veifa þeirri dulu lengur. Eða man ekki hv. þm., að vantraustsyfirlýsingin féll í n. d. með 13:12, og veit hann ekki að forseti n. d. er 14. stuðningsmaður stjórnarinnar þar. Man hann ekki, að í þessari deild báru 3 þjóðkjörnir þm. fram vantraustyfirlýsing á fyrv. ráðherra, og fyrst þeir vildu fella hann, má búast við að þeir muni ekki amast við hinni nýju stjórn. Ef 14 og 3 eru lagðir saman, þá verður það helmingur þjóðkjörinna þingmanna. Við þessa 17 bætast 6 kgk. þm, en þingræði er það, að meiri hluti allra þingmanna ráði. Annars verður þetta samband, eg þori ekki að kalla það samskrið, milli hv. brota hins svokallaða sjálfstæðisflokks, ekki svo óskiljanlegt, þegar á alt er litið, þó þau áður hafi verið búin að segja svo skýrt sundur með sér. Því hvað skyldi valda því, annað en ósk fyrverandi ráðherra annarsvegar um að vera sýknaður af afbrotum sínum, og hins vegar von sparkliða um að komast á hvalfjöruna og hræðsla þeirra við Ísafold. En þar hafa þeir „gert reikning án verts“, því það verður fyrverandi ráðherra, sem græðir á sambandinu, en ekki þeir.