27.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jósef Björnsson:

Eg hefi leyft mér að koma með lítilfjörlega brtill. á þingskj.756 um að tekið sé upp í 14. gr. fjárlaganna greiðsla álags á Viðvíkurkirkju. Háttv. framsögum. gat þess, að nefndin hefði ekki viljað taka afstöðu til þessarar tillögu af því, að hún hefði ekki sett sig inn í ástæðurnar fyrir henni. Eg vildi því með fáum orðum lýsa afstöðu þessa máls. Eg gæti að vísu látið mér nægja að vitna til þess sem eg sagði á þinginu 1909 og sem stendur í Alþt. 1909, 122—123, en með því, að mér skildist að háttv. framsögum. ekki muna vel til þessa, vil eg leyfa mér að taka upp aftur aðalatriði málsins.

Þetta álag er svo til komið, að þegar Hofstaðaþing voru lögð niður árið 1861, þá voru makaskifti höfð á Hjaltastöðum og Viðvík og Viðvík gerð að prestsetri. Ári síðar, 1862, var kirkjan í Viðvík tekin út, og á hana lagt 200 ríkisdala álag. Þessa álags hefir verið krafist aftur og aftur af hlutaðeigendum, fyrst við Helga biskup Thordersen, síðan við Pétur biskup Pétursson og enn fremur við Hallgrím biskup Sveinsson, sem allir virðast hafa verið málinu hlyntir, en ekki getað komið því fram. Þegar nú fyrir nokkru, er söfnurinn tók við kirkjunni, var enn á ný gerð tilraun til að fá álagið greitt. Urðu um þetta talsverðar bréfaskriftir í gegnum prófastinn í Skagafjarðarprófastsdæmi til Hallgríms biskups Sveinssonar, og núverandi biskups. Af þeim málaleitunum varð þó ekki annar árangur en sá, að Þórhallur biskup Bjarnarson mælti með því, að þetta tillag yrði veitt, bæði sökum þess að þetta væri sanngirniskrafa og að kirkjan væri orðin hrörleg og fátæk. Mál þetta var tekið til athugunar í fjárlaganefnd háttv. neðri deildar á þinginu 1909, og eg hefi ástæðu til að ætla, að það hafi fengið samþykki nefndarinnar, því svo hefir einn nefndarmanna skýrt mér frá, en fyrir gleymsku komst tillagan ekki í brtill. nefndarinnar. Fyrir þá sök flutti eg brtill. 1909 hér í þessari háttv. deild um að álagið yrði greitt, en hún náði þá ekki samþykki, sökum þess, að fjárlaganefndin taldi réttast að stjórnin tæki greiðsluna á fjárlagafrumvarp sitt. En þetta hefir fráfarin stjórn ekki gert. Eg hefi þess vegna leyft mér að bera hana fram hér, enn á ný, þótt bezt hefði verið að hún hefði komið frá stjórninni. Nú hafa verið bréfaviðskifti um þetta mál síðan á þingi 1909. Þannig hefi eg 2 bréf í höndum frá biskupi til stjórnarráðsins, dags. 23. Apríl 1910 og 22. Sept. s. á., þar sem biskup mælir eindregið með því, að þetta álag verði greitt og að stjórnin taki það í fjárlagafrumvarp sitt. Í bréfi sínu 22. Sept 1910 farast biskupi þannig orð, að ætla má að hann telji kröfu safnaðarins fullkomlega réttmæta, og skal eg með leyfi forseta lesa lítinn part úr því bréfi:

„Úttektin frá 30. Júní 1862, sem löglega skuldbatt afhendanda til álagsgreiðslunnar, er nú í Landskjalasafni í bréfum og úttektum Hegranesþings 1851—1869“. Góð og gild skjöl eru því til fyrir þessari kröfu sóknarmanna, og biskup telur þá eiga rétt til greiðslunnar. Eg skal ekkert um það dæma, hvort þeir eigi fullan lagalegan rétt til álagsins, en eg verð að taka það fram, og legg áherzlu á það, að þeir eiga að minsta kosti sanngirnisrétt til þess. Og eg tel engan vafa á því, að sóknarmenn muni leitast við að ná því með dómi, fáist ekki á annan hátt. Mér virðist að háttv. deild geti litið á þetta sem sanngirnismál, hvað sem líður lagahlið þess.

Um leið og eg læt þetta nægja um þessa brtill., þá vildi eg minnast á eitt atriði í tillögum fjárlaganefndarinnar, þá tillögu hennar að fella niður fjárveitinguna til brautarlagningar í Skagafirði. Háttv. framsögum. sagði, að það sem aðallega hefði vakað fyrir nefndinni væri það, að vegir þar væru góðir. Eg vil nú leyfa mér að upplýsa, að sá vegur, vegurinn frá Sauðárkrók inn Skagafjörð, er víða alt annað en góður. Og það er ekki nema eðlilegt, að vegir í Skagafirði séu ekki góðir. Póstvegurinn liggur um sýsluna þvera, svo hans verður lítil not. Sýslufélagið hefir því orðið að kosta vegi um langar leiðir, og þótt landslag sé þar sumstaðar gott til vegalagninga, þá er líka allvíða mjög erfitt að leggja vegi og halda þeim við, og vegurinn frá Sauðárkróki inn að Víðimýri er mjög slæmur víða, það get eg um borið, engu síður en háttv. framsm. Þessi ástæða er því ekki nægileg til að fella niður fjárveitinguna.

Svo er annað, að þar sem þessi braut er samkv. 3. gr. vegalaganna 13. Apríl 1894 sett svo snemma á listann yfir flutningabrautir landsins, að hún er á undan 3 brautum, Eyjafjarðarbrautinni, Reykjadalsbrautinni og Fagradalsbrautinni, sem nú er lokið, eða þær vel á veg komnar, þá væri í mesta máta ranglátt að setja hana enn hjá með því að strika út fjárveitingu þá, sem háttv. neðri deild hefir lagt til hennar. Þetta hefir gefið mér ástæðu til að líta á, hver fjárframlög Skagafjarðarsýsla hefir fengið á fjárlögum síðustu ára. Eg hefi gengið í gegnum fjárlög síðustu 20 ár til að athuga þetta, og skal eg leyfa mér að skýra frá því sem eg hefi komist að.

Það er þá fyrst, að á fjárlögunum 1891, fyrir fjárhagstímabilið 1892—1893, eru veittar 2400 kr. til að koma á svifferjum á Héraðsvötnum. Eg skal þó geta þess, að önnur svifferjan féll síðar til landssjóðs, með því hún var flutt á aðalpóstferð. Á fjárlögunum eru það ár veittar 72,400 kr. til vegabóta.

Á næstu fjárlögum, 1893, fyrir tímabilið 1894—95, er veittur styrkur til brúargerðar á Héraðsvötnum 5000 kr. Sú brú kostaði miklu meira en tvöfalt meira. En það fé, sem á vantaði, var lagt til af sýslusjóði og gefið allmikið fé af einstökum mönnum. Í þessu sambandi skal eg geta þess, að það hefir ekki gert svo lítið til fyrir sýsluna, að þar hafa allar ár, sem nokkuð kveður að, verið brúaðar styrklaust á sýslunnar kostnað, að þessum eina litla styrk undanskildum. En það hefir eðlilega dregið úr gjaldþoli sýslubúa til annara samgöngubóta. Þetta ár voru veittar til vegabóta alls 141 þús. kr. Árið 1895, fyrir fjárhagstímabilið 1896—97, fær sýslan ekki neitt af 151 þús. kr., sem veittar eru til vegabóta. Á fjárlögunum 1897, fyrir árin 1898—99 fær hún heldur ekkert af 185.250 kr. sem veittar voru til vegabóta. Árið 1899, fyrir tímabilið 1900—01, fær sýslan ekkert af 166,600 kr. veittum til vegabóta. Á fjárlögum 1901, fyrir árið 1902—03, fær hún 600 kr. til dragferjuhalds af 175,100 kr., er gengu til vegabóta. Árið 1903, fyrir árin 1904—05, fær sýslan enn 600 kr. til dragferjuhalds og 1000 kr. til vegar frá Hofsós að Ökrum, gegn jafnmiklu tillagi úr sýslusjóði. Það ár voru veittar 272,200 kr. til vegabóta. Á fjárlögunum 1905, fyrir árin 1906—07, fær sýslan ekkert nema þessar 600 kr. til dragferjuhalds af 183,000 kr., sem það ár voru veittar til vegabóta. Árið 1907, á fjárlögunum fyrir 1908—09, fær sýslan enn 600 kr. til dragferjuviðhalds, af 307,100 kr., sem veittar voru til vegabóta. Á fjárlögunum 1909, fyrir fjárhagstímabilið 1910—1911, fær hún enn þessar 600 kr. af 246,300 kr., sem veittar voru til vegabóta. Með öðrum orðum, þá hefir Skagafjarðarsýsla fengið alls á þessum 20 árum 11,400 kr. til vegabóta af 1,898,950 kr., sem til þeirra hafa verið veittar á því tímabili. Hún hefir fengið til vega að jafnaði 570 kr. á ári af þeim 95 þús. kr., sem veittar hafa verið til hins sama að meðaltali hvert ár. Þegar við athugum, hve mikill hluti þetta er af vegafénu, þá sést að það er ekki nema 1/166 partur af því. En Skagafjarðarsýsla er að tölunni til rúmlega hluti þjóðarinnar. Samkvæmt síðasta manntali voru þar 4,365 manns. Hvað Skagafjarðarsýslubúar leggi til landssjóðs, skal eg ekki telja hér, en mér er óhætt að fullyrða að þeir leggi til sinn skerf fullan eftir mannfjölda.

Eg sé því ekki annað, en að hér sé fullsæmilega að verið, þó að ekki sé enn dregið að byrjað sé á þessu mannvirki, sem Skagfirðingar ættu að hafa fengið fyrir löngu. Eg vil ekki ámæla nefndinni fyrir það, þó hún hafi lagt til að fella þessa fjárveitingu niður. Eg vil að eins benda háttv. þingdeildarmönnum á sanngirnina í þessu máli.