31.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

116. mál, bæjarfógetaembættið á Akureyri og sýslumannsembættið í Eyjafirði

Steingrímur Jónsson:

Eg er samþykkur háttv. flutningsmönnum um, að þörf sé á að rannsaka þetta mál, sérstaklega þar sem veitt hefir verið á fjárlögunum undanfarin ár fé til lögreglustjóra á Siglufirði. En þótt eg sé sammála þeim um þetta, þá er eg ekkert hrifinn af leiðinni, sem þeir vilja fara, því að eins og tekið hefir verið fram af háttv, 5. kgkj., þá á ekki að nota þingsályktunartillöguformið nema brýn þörf sé á. Eg get ekki skilið annað en að hver góð stjórn, sem sér sóma sinn, muni verða við óskum héraðsbúa og taka þær til greina. En mér þykir oflangt gengið, þar sem segir hér í tillögunni: „og leggja málið fyrir næsta þing“. Það er eins og það sé sjálfsagt að stjórnin skuli koma með frumvarp um að aðgreina embættin. Ef rannsóknin færi á þá leið að stjórninni fyndist ekki ástæða til aðgreiningarinnar, eða ef hún fyndi aðrar leiðir, t. d. eins og háttv. 5. kgkj. benti á, að skilja að borgarstjórastarfið og bæjarfógetaembættið, þá á það að nægja. Af þessum ástæðum er eg meðmæltur rökstuddri dagskrá, hún er nægilega áhrifamikil. Sú aðferð finst mér vera aðgengileg. Hún hefir þann kost fram yfir þingsál.till. að hún er réttlát, hún fer fram á, að um leið og rannsakaðar eru ástæður til skiftingar Eyjafjarðarsýslu, þá sé líka rannsakað, hvernig hagi til um hina kaupstaðina. Eg er viss um, að maður getur að minsta kosti búist við því, að strax á sama þinginu og búið væri að hamra þessari skiftingu fram, mundu koma líkar beiðnir frá hinum kaupstöðunum, t. d. Ísafirði, þótt eg hinsvegar játi að þar sé ekki eins mikil þörf og í Eyjafirði.