03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Björn Kristjánsson:

Eg er þakklátur fjárlaganefndinni fyrir það, hve vel hún hefir tekið í breyt.till. mína á þgskj. 361. Eins og mönnum er kunnugt, hefir bankinn haft nú um nokkur ár reikningsfærslu landssjóðs á hendi og fengið þar fyrir greitt úr landssjóði 2500 kr. á ári. Áður, í tíð landfógeta, kostaði reikningshald þetta landssjóð um 6100 kr. En að bankinn á sínum tíma tók þetta að sér fyrir svona litla borgun, var af því, að landssjóður lét bankann ávaxta fé landssjóðs fyrir lága vexti, þá 2%, og á þeim tíma átti landssjóður allmikið fé, en nú er þetta breytt svo, að bæði er nú minna fé venjulega fyrirliggjandi í landssjóði og svo hafa vextirnir hækkað úr 2% í 4—4½%, og getur því ekki borgað sig fyrir bankann að hafa þetta starf á hendi lengur sér í stórskaða, enda getur bankastjórnin ekki forsvarað það, að hafa á hendi störf, sem fyrirfram er sjáanlegt, að muni verða tap fyrir bankann. Hinsvegar ætlast bankinn ekki til að hafa neinn hagnað af þessu, heldur að eins fá kostnaðinn endurgoldinn, sem nú er orðinn 5000 kr árlega, ef alt er reiknað.

Þá er breyt.till. mín á þgskj. 360, sem framsm. einnig mintist á; tillaga þessi fer fram á aukinn styrk til strandgæzlu úr landi. Á síðustu fjárlögum voru veittar 500 kr. til þessa, en það liggur í augum uppi, að þessi fjárhæð er svo lítil til slíks, sem hér um ræðir, að það er varla til nokkurs að vera að hafa hana á fjárlögunum. Nú stendur svoleiðis á, að beiðnir hafa borist úr mínu kjördæmi um að fá alt að 8000 kr. til þess að halda uppi strandvörnum úr landi. Eg býst nú raunar ekki við, að þingið muni veita svo stóra upphæð í þessu skyni, þrátt fyrir það þó þessu fé mundi enganveginn verða á glæ kastað, heldur geta orðið til þess, að framleiðslan ykist að miklum mun, og að því á þingið að starfa fyrst og fremst með fjárveitingum sínum, að hún aukist, svo þessari fjárbeiðni er alls ekki saman að jafna við þær þar sem ekkert er í aðra hönd. Auk þess stendur hér svo sérstaklega á, að þessar verstöðvar, Garður og Leira, sem sent hafa þessar fjárbeiðnir, eru nálega eini staðurinn á þessu landi, þar sem fiskað er með netum, en þau veiðarfæri eru mjög kostnaðarsöm. Nú hefir verið áætlað, að í þessum tveimur veiðistöðvum mundi fiskast um 300 skp. af fiski, og ennfremur hefir verið gerð áætlun um, að botnvörpungar muni árlega eyðileggja þar um 200 net, auk alls aflatjónsins, sem veiðistöðvar þessar verða fyrir.

Af þessum ástæðum vona eg, að menn sjái, að hér er þörf á sérstakri vernd gagnvart yfirgangi botnvörpunga, og hefi eg leyft mér að koma með breyttill. í þá átt, að styrkurinn verði hækkaður upp í 3000 kr.; enda þótt mér sé það ljóst, að slík fjárhæð muni ekki hrökkva til þess að gera út sérstakan bát, þá er eg þó hins vegar fullviss um það, að hún getur orðið að mjög miklum notum. Annars má margt um þetta segja, og skal eg ekki þreyta hina háttv. deild á langri ræðu um tillögu þessa.

Þá skal eg leyfa mér að minnast lítils háttar á breyt.till. á þgskj. 359, að aftan við 8. lið g bætist nýr stafliður h svohljóðandi: »Til greiðslu upp í lækningakostnað unglingsins Önnu Magnúsdóttur á ljóslækningastofnun N. Finsens í Kaupmannahöfn 3000 kr. fyrra árið«. Varatillaga er á þgskj 435, að upphæðin verði 2000 kr., og þrautavaratillaga á sama þgskj. 1500 kr., sem er þó satt að segja svo lítið, að það er neyðarbrauð að bera hana fram; en hvað um það, lítið er betra en ekki neitt.

Af því að sérstaklega stendur á um þetta mál, skal eg upplýsa það með örfáum orðum. Móðir þessarar Önnu Magnúsdóttur dó nú fyrir eitthvað 5 árum; faðir hennar var dáinn löngu fyr; hún var mjög fátæk og lá því ekki annað fyrir börnunum en fara á sveitina. En þó varð ekki af því, því nokkrir góðhjartaðir menn tóku að sér börnin, og þar á meðal einnig þetta barn, sem tómthúsmaður einn í Keflavík tók að sér. Þegar barn þetta var á 9. ári fór að bera á veiki þeirri, sem hana hefir þjáð síðan, en það er svo nefndur »Lupus«. Maður þessi sendi hana þá hingað til Reykjavíkur, og var hún hér undir læknishendi um tíma, en það kom að engu haldi, veikin magnaðist alt af meira og meira. Þá réð Guðmundur Magnússon læknir manninum til að senda hana á ljóslækningastofnun þá í Kaupmannahöfn, sem kend er við dr. Finsen, og var hún þangað send árið 1906, þá 13 ára gömul, og hefir hún dvalið þar síðan, og hefir nú fulla vissu um að verða albata, ef hún getur verið þar eitt ár ennþá.

Þessi fátæki tómthúsmaður gat auðvitað ekki klofið kostnað þann, sem af dvöl hennar leiddi á Finsens hælinu, og neyddist hann því til að senda sveitinni kostnaðarreikninginn, en samkvæmt fátækralögum frá 1908 er framfærslusveitin eigi skyld til að greiða meira en 200 kr. til sjúkraframfæris á sjúkrahúsum; það sem þar er yfir á landssjóður að greiða. Reikningurinn var því sendur áleiðis til stjórnarráðsins með tilmælum um, að það sem til vantaði yrði borgað úr landssjóði.

Nú leið og beið, og stjórnarráðið lét ekkert til sín heyra um þetta mál; en að sjö mánuðum liðnum sendi stjórnarráðið úrskurð, er ákvað, að landssjóði bæri heldur eigi að greiða þetta fé, þar sem sjúklingurinn væri á erlendu sjúkrahúsi. Þannig urðu þá endalok þessa máls, en hversu sannsýnt það hafi verið af stjórnarráðinu, að láta manninn bíða í 7 mánuði eftir þessum úrslitum, það vona eg að allir sjái. Nú er stúlkan orðin 18 ára og hefir, eins og eg hefi áður tekið fram, fengið fulla vissu fyrir að fá fullkominn bata, ef hún getur verið eitt ár enn. En þetta kostar mikið, 80 kr. á hvern mánuð, og því ekki von, að fátækur tómthúsmaður geti klofið það, og þess vegna hefi eg farið fram á að fá veittar 3000 kr. og með því móti mundi hlutaðeigandi þó verða að greiða um 800 kr., og er það sannarlega eins mikið og nokkur sannsýni er að ætlast til. En sjái þingið sér eigi fært að veita þá fjárhæð, þá vona eg, að varatillaga mín nái fram að ganga, og þó að 3. tillaga mín sé neyðarúrræði, þá þótti mér réttara að láta hana fylgja með, og vonast til að þingið veiti þetta fé að minsta kosti, svo að þessi unglingur geti fengið fulla lækningu.