03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Jónsson (1. þm. S.-Múl.). Eg get tekið mér í munn orð háttv. þm. A.-Sk. um það, að ef eg ætti að bera fram hér á þingi allar þær fjárbænir, sem til mín hafa komið úr mínu kjördæmi, þá mundu þær nema eigi alllítilli upphæð, og þó eru þær flestar, ef ekki allar á fylstu rökum bygðar, en mér hefir ekki fundist fært né jafnvel rétt að fara fram á fleiri, en eg hefi nú framborið. Fjárhagsútlitið leyfir enga eyðslusemi, og margt nauðsynlegt og nytsamlegt verður að bíða. Og þær till., sem eg er viðriðinn í þessum kafla fjárlaganna munu ekki verða með rökum kallaðar ónauðsynlegar eða frekjulegar.

Það er þá fyrst fjárveiting til að brúa Hamarsá í Geithellahreppi. Héraðsbúar þar hafa óskað að fá brú á þessa á, og sýnt fram á það með ljósum rökum, að full nauðsyn ber til þess; en af því eg geri ráð fyrir, að fæstir þingmanna séu kunnugir á þessari, þá skal eg með örfáum orðum leyfa mér að lýsa, hvernig tilhagar.

Áin er á þjóðvegi og aðalpóstleið, og þess vegna skylda landssjóðs að koma brú á hana. Áin er jökulvatn og þess vegna oft mikil á sumrin, og er því hinn mesti farartálmi, og mjög oft al ófær, ef ekki væri sú bót, að oftast nær er hægt að komast yfir hana á fjörum, en til þess verður þó að sæta sjávarföllum og stundum er hún einnig ófær á fjörunum, einkum fyrir ísrek og krap. Það sjá nú allir, að þó hægt sé að komast yfir á þessa með mjög mikilli tímatöf, jafnvel svo dægrum skiftir, þá er slíkt hin mestu vandræði fyrir alla, er hlut eiga að máli, póst, langferðamenn og þó einkum sveitarmenn sjálfa, þar sem áin er á kaupstaðarleið margra þeirra. Sveitarstjórn Geithellahrepps skýrir svo frá, að fyrir löngu hafi menn séð og fundið þörf á að brúa þessa á, og þar sem nú flestar stærri ár á landssjóðsvegum hafa verið brúaðar, þá líta þeir svo á, að nú sé tími til kominn að benda á þörfina hjá sér. Verkfræðingur landsins, Jón Þorláksson, hefir gert ráð fyrir, að brú á þessa á mundi kosta um 10500 krónur, ef hún væri úr járni og sömuleiðis, þótt hún verði bygð úr steinsteypu, eins og sést af skjölum þeim, sem lögð hafa verið fram, og eg hefi hér í höndum nú.

Þá er 2. liður tillögunnar, að veittar séu 2000 kr. til akvegar í Eiðaþinghá; 1000 kr. hvort árið. Nú er svo komið, að alt Fljótsdalshérað getur flutt vörur sínar á vögnum beint frá Reyðarfirði að Lagarfljótsbrú, og mótorbátur gengur eftir leginum upp í Fljótsdal, en íbúarnir í Eiðaþinghá og annarstaðar í Úthéraði geta ekki notað þennan bát sökum þess hve fljótið er grunt. Nú hefir vegurinn út héraðið fyrir skömmu verið gerður að sýsluvegi og hefir verið varið til hans sýsluvegagjaldinu, og gerður akvegur út eftir héraðinu, auðvitað enn ekki nema dálítinn spöl, og ekki er hann heldur enn algerlega tengdur við Fagradalsbrautina, þótt lítið vanti á það. Eg þykist ekki þurfa að fara fleiri orðum um þetta, þar sem sýslubúar hafa sýnt svo mikla viðleitni, og að eins er um 1000 kr. að ræða hvort árið móti jafnmiklu tillagi að minsta kosti annarstaðar frá — og vil eg ljúka máli mínu með því, að benda á það, að ef ástæða hefir verið til að veita fé til sýsluvegaaðgerða nokkursstaðar, þá er að minsta kosti einhver ríkasta ástæða til þess hér; og vænti eg að h. deild líti á þetta með sanngirni og samþykki þessa tillögu.