03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Sigurðsson:

Eg vil fyrst minnast á breyt.till. á þgskj. 396, um styrk til þess að koma upp« gistihæli í Fornahvammi. Síðan vetrarferðir urðu tíðari, hefir umferð aukist þar mjög. En svo vill fara fyrir þeim, sem færa bygð sína í afdali, að þeir græða lítið á búskapnum, enda er gestanauðin hinn mesti tímaþjófur á þessum stað. Engum sem til þekkir, mun dyljast, að mikil nauðsyn er á, að koma hér upp viðunanlegu hæli fyrir ferðamenn, annars getur líf og heilsa manna oft og tíðum verið í veði. Bóndinn í Fornahvammi hefir áður haft nokkurn styrk til þess að hýsa póst, en húsakynni hans eru ekki svo góð, að hann geti hýst alla, sem að garði ber. Hann hefir nú skrifað mér og beðið mig að útvega sér 500 kr. styrk í eitt skifti fyrir öll, til þess að koma upp viðunanlegum húsakynnum, og yrði sá styrkur svo bundinn nánari skilyrðum, sem stjórnarráðið setti. Eg vona, að hin háttv. deild íhugi, að hér er um nauðsynjamál að ræða, og að mikið er í húfi, ef neitað er um styrkinn.

Þá vil eg minnast á aðra breyt.till., sem eg á, um að hækka styrkinn til Guðmundar Magnússonar skálds, úr 800 kr. upp í 1200 kr. Síðasta þing hækkaði skáldstyrk hans nokkuð, svo að hann gæti haldið áfram ritstörfum sínum; og er ekki hægt annað að segja, en að síðan hafi ávextirnir verið miklir. Hann hefir á þessum tíma gefið út margar sögur: Grenjaskyttuna, Fylgsnið, Borgir og Þorradægur; síðasta bókin er nú fullprentuð. Ennfremur hafa birzt margar smásögur eftir hann í Skírni og Eimreiðinni. Eg hygg, að það sé almannarómur, að allar þessar sögur séu mjög góðar, enda hafa þær gengið vel út. Eg vil einnig benda á, að dómfærir menn,

t. d. dr. Valtýr Guðmundsson, hafa ritað um sögur Guðmundar, og lokið á þær miklu lofsorði. Síra Jónas Jónasson hefir sagt um Fylgsnið, að það væri ein hin efnisþyngsta saga í nýrri bókmentum vorum, og að Guðm. væri nú kominn í fremstu röð meðal skáldsagnahöfunda vorra. Þessi meðmæli eru þung á metunum, því að þau koma frá mönnum, sem vit hafa á. Styrkhækkunin, sem breyt.till. fer fram á, er ekki mikil, einar 400 kr. Háttv. þm. Dal. (B. J.) gat þess áðan, að menn mættu ekki vera of nærsýnir í þessum efnum; eg fellst algerlega á það, því að þótt landssjóður hafi í mörg horn að líta, þá aukast ekki útgjöldin til neinna muna við bókmentastyrkina. Eg skal sízt lá þeim, sem vilja spara, en vil þó minna á, að maðurinn lifir ekki af brauði einu saman og því megum við aldrei gleyma, að það eru rithöfundar og sagnamenn, sem hafa haldið nafni þjóðar vorrar á lofti. Það eru nöfn slíkra manna, sem ljóma skærast á söguhimni vorum, og þó að þjóðin hafi eigi altaf kunnað að meta ágætismenn sína lifandi, þá hefir henni seinna skilist, hvers virði þeir voru. En heppilegast er, að menn fái viðurkenningu, meðan þeir eru að starfi í fullu fjöri. Þegar verkleg fyrirtæki hafa verið hér til umræðu, hefir verið talað um, að stuðla ætti að því, að innlendir menn fengju atvinnu við þau. Eg er því fyllilega samþykkur, en vil að eins benda á, að mér virðist gegna sama máli um bókmentirnar. Af því að ekki er ritað og gefið út nógu mikið af fræðibókum og skáldritum innanlands, verða menn að flytja inn í landið mikið af útlendum bókmentum, og er margt af því harla léttvægt. Neðanmálssögur blaðanna eru t. d. oft mjög lélegar og óþarfar, og virðist liggja nær að styrkja innlenda rithöfunda, heldur en að ausa í þjóðina »graut úr útlendum neðanmálssögum«. Eg vona að deildin samþykki þessa fjárveiting; Guðmundur Magnússon á hana sannarlega skilið, því að hann er nú kominn á öndvegisbekk meðal íslenzkra rithöfunda.

Þá hefir komið fram breyt.till. um að lækka styrkinn til Einars Hjörleifssonar og Þorsteins Erlingssonar. Háttv. þm. Vestm. (J. M.) hefir sýnt fram á, að Einar Hjörleifsson hefir gert mikið fyrir þann styrk, sem honum var veittur á síðasta þingi. Eg vona, að hann sé fastur í sessi og skal því ekki fjölyrða um hann. Um Þorstein er það að segja, að af sérstökum ástæðum hefir ekki enn þá birzt á prenti 6 arka kvæðabálkur, sem hann þó hefir lokið við, og virðist óhæfilegt að lækka við hann styrkinn fyrir þær sakir. Þó að hann sé seinvirkur nokkuð, þá er það til bóta, að hann er manna vandvirkastur og fáir gallarnir á verkum hans, þegar hann hefir gengið frá þeim, svo sem honum líkar. Eg vil ennfremur leyfa mér að benda á, að þegar slíkir rithöfundar einu sinni hafa fengið fjárlagastyrk, þá er skylt að svifta þá honum ekki aftur, nema þeir hafi brotið eitthvað af sér. Rithöfundarnir hafa fulla kröfu á, að þingið sé ekki að grauta með slíkar fjárveitingar, og það jafnvel ekki þó að nýjar kosningar hafi farið fram, hvað þá heldur, þegar eins stendur á og nú, að hinir sömu menn sitja á þingi, sem greiddu atkv. með þessum styrkveitingum í síðustu fjárlögum. Eg get ekki trúað því, að þeir hinir sömu fari nú að greiða atkvæði ofan í sjálfa sig, enda er eg sannfærður um, að fáum fjárveitingum þingsins er betur varið en þessum. Eg vona því, að þessi breyt.till. verði feld.