03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Eggert Pálsson:

Eg á hér eina breyt.till. ásamt háttv. samþingismanni mínum fram hjá fjárlaganefnd, sem hún sá sér ekki fært að flytja, en setur sig heldur ekki verulega á móti. Breyt.till. fer fram á það, að lána megi Ásahreppi í Rangárvallasýslu gegn ábyrgð sýslufélagsins, alt að 30 þús. kr. til að hlaða í Djúpós til verndunar Safamýri og landi því, sem að henni liggur, og sé lánið endurgreitt með 6% á 28 árum. Eg býst við, að segja megi um þessa lánbeiðni eins og aðrar, að fé sé ekki fyrir hendi til lána. En sé ekki fé í viðlagasjóði, sem eg veit að satt muni vera, þá tek eg undir það, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að ef fé er ekki fyrir hendi, þá verður heimild til slíkra lánveitinga ekki notuð. Og hér er að eins um heimild fyrir landsstjórnina, og ekkert annað að ræða.

Eg skal nú sýna fram á, að hér er um þarft fyrirtæki að ræða, ef það gæti náð framkvæmd. Safamýri kannast allir við, þótt þeir viti máske ekki nánari deili á henni. Safamýri liggur á milli Þjórsár og Hólsár, sem í fornöld hét Djúpá og bærinn Djúpárbakki stóð við, sem menn munu kannast við úr Njálu. Landspilda þessi er eggslétt og svo grasgefin, að ekki eru dæmi til slíks annarstaðar. Hún er að stærð um 4000 vallardagsláttur. Þar sem hægt er að fást við heyskap í mýrinni, kemur fyrir, að meðalkarlmaðar slái 40 hesta á dag. Þessi mýri verður nú mjög fyrir vatnaágangi af Þverá og Rangá, sem koma saman í eitt rétt fyrir austan hana og runnu í öndverðu til sjávar eftir Hólsár- eða Djúpárfarvegi. En hafa fyrir all-löngu, einhverntíma á 18. öld, brotið sér farveg gegn um svo að segja miðja mýrina vestur í Þjórsá. Þessi farvegur er það, sem Djúpós nefnist, og nú er verið að hugsa um að teppa, svo að eigi flæði vatn yfir mýrina til jafnmikils tjóns og nú á sér stað.

Að mönnum hefir komið til hugar að framkvæma þetta verk nú, stafar af því, að það hagar svo til, að aðalvatnið hefir nú fyrir skömmu brotið sér nýjan farveg fram, nokkru fyrir austan Hólsárfarveginn, sem kallaður er Valalækur, og með því létt svo á Djúpós, að tök virðast á því að hefta framrensli vatnsins þar. En ef Valalækur stýflast af sandi, þá vex vatnið aftur í Djúpós og flæðir enn meira inn á mýrina. Með öflugri fyrirhleðslu í Djúpós, mætti þegar vatnið legst frá Valalækjarfarveginum koma því til leiðar, að það rynni sinn gamla farveg fram Hólsá, og væri þá Safamýri borgið. Álíta menn, að ef þessi viðgerð fengist, þá mundu fást 55—60 þúsund hestar af mýrinni á ári og mætti heyja það alt með sláttuvélum og rakstrarvélum. En eins og nú er ástatt, er ekki hægt að heyja þar nema 11—12 þúsund hesta. Mýrinni er skift þannig milli hverfa, að Bjóluhverfi á 1/7, sem telja má nothæft eins og er, en Þykkvibærinn ?, sem ekki er hægt að nota nú að neinu leyti, vegna vatnsins, En þeir eiga miklar engjar aðrar nokkru framar, sem þeir bjargast við, en hafa þó þörf á að geta haft líka fullkomin not þessara engja og mundi því fyrirhleðsla í ósinn verða hjá þeim til mjög aukinnar framleiðslu og vellíðunar. Hinn hluti Safamýrar liggur undir Vetleifsholtshverfi, og er það að nokkru nothæft, en nokkru alls ekki. Væru nú nægir peningar til framkvæmdar þessu verki, sem hér ræðir um, mætti gera alla Safamýri að nothæfu engi fyrir sláttuvélar, og þeir sem bezt vit hafa á, t. d. hreppstjórinn í Ásahr., sem er búfróður maður, segja, að 30000 kr. mundu nægja til fyrirhleðslu í Djúpós. Lengdin á aðal-fyrirhleðslunni er ekki nema c. 200 faðmar, en þótt hún sé ekki meiri, þá verður samt verkið æðidýrt, því alt efni verður að sækja langar leiðir að; úr mýrinni sjálfri verður það ekki tekið sakir þess, hvað botninn er ýmist blautur eða sandborinn. En þótt hér sé um mikið og erfitt verk að ræða, þá ætti það þó að takast, ef féð væri til; og ekki tel eg vafa á því, að Búnaðarfélagið mundi styrkja þetta fyrirtæki með þeim kröftum og þekkingu, sem það á til. Þess ber og að gæta, að hér er ekki um straumvatn að ræða, því að ósinn er lygn, og ætti það að gera verkið auðunnara.

Eg vona nú að menn sjái af þessari stuttu skýrslu, að hér er um það að tefla að bjarga afarmiklu og góðu landi frá skemdum, og treysti eg þess vegna því, að deildin muni veita heimild til að lána þetta fé, ef til verður, enda er nokkur munur á því og virðist eitthvað tiltækilegra, að verja svona land, svo ágætt sem það er með tiltölulega litlum kostnaði, en að búa til nýtt samskonar land, þótt það kunni einhverntíma seinna að verða að gagni. Eg ímynda mér, að það þýði ekki mikið að fara fleirum orðum um þetta mál, en vona að mönnum sé orðið það ljóst, hvað hér er í húfi, og eins hitt, að viðlagasjóði er ekki stofnað í neina hættu með þessu láni frekar en öðrum.

Þá vildi eg segja nokkur orð um breyt.till. á þgskj. 363. Þar er um litla fjárveitingu að ræða, en til mjög þarflegs fyrirtækis, þó að eins 3000 kr., til þess að rannsaka járnbrautarstæðið austur. Það er þegar búið að leggja nokkuð fé í þetta fyrirtæki, og er augljóst, að því er sama sem fleygt í sjóinn, ef rannsókninni verður ekki lokið. Það er álitið, að þetta, sem hér er farið fram á, mundi nægja til þess að fullgera þessar rannsóknir, og þótt fjárveiting sama efnis væri drepin á síðasta þingi, þá má ætla, að ekki fari á sama hátt nú. Reyndar munu nú vera skiftar skoðanir um það, hvort landið sé því vaxið, að gera járnbrautir, en hitt vita allir, að ef þær eiga að komast hér á, þá verða þær að koma fyrst á Suðurlandsundirlendinu. Eg lít nú svo á, að við verðum að hafa járnbrautir, eins og aðrar þjóðir, sem til menningarþjóðanna geta reiknast. Eg hefi fyrir mitt leyti þá trú bæði á landi og þjóð, að við hljótum að verða því vaxnir mjög bráðlega, að innleiða hjá okkur slíkt menningar- og framfaratæki, sem járnbrautirnar eru. Og álíti nokkur annað, þá virðist mér það lýsa fullkomnu vantrausti, bæði á landinu og á því, að vér getum nokkurntíma staðið öðrum mentalöndum á sporði. En hvað sem því líður, þá er full þörf á því að fá að vita, hvað slíkt mundi kosta; þangað til er þýðingarlaust að ræða um þetta og rita, og skifta sér niður í flokka með og móti. Fyrst þegar þekkingin er fengin á því, hvað járnbraut hér mundi kosta, geta menn farið að tala um, hvort landssjóður eigi að byggja hana sjálfur, eða veita öðrum einkarétt til þess.

Þá eru nokkrar aðrar breyt.till. Fyrst ein frá háttv. 1. þm. N.-Núl. (J. J.) um það, að styrkurinn til samvinnusmjörbúa sé feldur niður, en tekinn upp aftur nýr styrkur til nýrra búa, sem eru ekki til, og er ætlast til, að hvert slíkt bú fái 1000 kr. Hér er með öðrum orðum beinlínis farið fram á, að gefa mönnum fé til þess að stofna smjörbú, þótt ekkert verði svo úr fyrirtækinu, nema stofnunin ein. Eg get ekki felt mig við þetta, því sé það svo, að smjörbúin borgi sig, eins vel og látið er, þá virðist ekki ástæða til að gefa mönnum fé til þess að setja þau á stofn. Það voru einmitt brautryðjendurnir, sem réðust fyrst í slíkt, án þess að vita, hvernig fara mundi, sem áttu skilið að fá slíkan styrk, en fengu þó ekki, því fé það, sem í undanförnum fjárlögum hefir verið veitt sem verðlaun fyrir útflutt smjör, er talsvert annars eðlis. Það getur ekki komið til útborgunar, fyr en smjörið er framleitt og selt. En styrkur sá, sem háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) ber fyrir brjósti, er ætlast til að borgaður verði, þótt ekkert smjör verði framleitt eða selt, að eins ef menn hlaupa til að stofna einhverja rjómabúsómynd, sem strax á næsta ári er svo úr sögunni dottið. En hvort fé það sem í fjárlögunum hefir verið veitt sem verðlaun fyrir útflutt smjör skuli standa áfram eða niður falla, um það skal eg ekki þrátta, en þingið hefir nú einu sinni komið sér saman um þá aðferð, þótt hún mætti nokkurri mótspyrnu frá verndarmönnum smjörbúanna, að lækka það um 2000 kr. á ári, unz það hyrfi með öllu. Við þessa reglu hafa nú allir sætt sig, og eg er ekki í vafa um, að það mundi mælast illa fyrir hjá öllum sem við smjörbúin eru riðnir, ef þessu verðlaunafé væri kipt burtu öllu í einu, og ekki sýndi það orðheldni af þingsins hálfu, að gera slíkt. Tillagan, sem gengur út á það að lækka þetta fé um 4000 kr. á fjárhagstímabilinu er framkomin af eintómum misskilningi. Háttv. framsm. fjárlaganefndar (B. Þ.) og nefndin í heildinni hafa, vegna annríkis, ekki gætt þess fullkomlega, hvernig á stendur í þessu efni, að upphæðin, sem í frumvarpinu stendur, er einmitt samkvæmt því sem þingið hefir áður ætlast til. Skal eg þessu til sönnunar benda á það, að árin 1908—’09 var styrkurinn til samvinnusmjörbúanna 16000 kr. fyrra árið, og 14000 kr. síðara árið, og í næstu fjárlögum 14000 kr., eins og áður, fyrra árið, og 12000 kr. síðara árið. Samkvæmt þessari reglu eiga því að koma næst 12000 kr. fyrra árið og 10000 kr. síðara árið, eins og er í frumvarpinu. Þetta er ákveðin regla, sem þingið hefir bundið sig við með mörgum orðum, svo ef fara ætti að gera efnisbreytingu frá þessu, þá væri það sama sem, að ekki mætti lengur reiða sig á það sem þingið hefir sagt og samþykt. Eg vildi því að þessi breyt.till. yrði tekin aftur, þar sem eg hefi nú skýrt fyrir deildinni, að hún hefir ekki við rök að styðjast, þau er samkvæm séu hugsun þingsins.

Eg finn ekki ástæðu til að tala meira um einstakar breytingatillögur, en finst nægilegt að sýna afstöðu mína til þeirra í atkvæðagreiðslunni.