03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Ólafur Briem:

Eg hefi leyft mér að koma fram með breyttill. á þskj. 372 um að 3000 kr. styrkur verði veittur til bryggjugerðar á Sauðárkrók. Það er kunnugt, að þar er oft mjög brimasamt. Það kemur oft fyrir, að ekki er hægt að lenda eða athafna sig við uppskipun sökum brims við lendingu, og það jafnvel stundum þó uppskipunarbátar geti legið við skipshlið á höfninni og tekið þar á móti vörum. Nú er ráðgert að byggja þar bryggju og hafa hlutaðeigendur farið fram á að fá 6000 kr. styrk til fyrirtækisins, en eg hefi ekki séð mér fært að fara fram á meira en 3000 kr., til þess að styrkveitingin væri í samræmi við aðrar fjárveitingar úr landssjóði til samskonar fyrirtækja. Það liggur fyrir teikning af bryggjunni eftir verkfræðing Krabbe, ásamt lýsingu á fyrirkomulaginu. Eg þykist ekki þurfa að mæla með styrkveitingunni, því mér finnst hún svo sjálfsögð. Sauðárkrókur er næst kaupstöðunum 3. kauptúnið á landinu, að því er snertir útfluttar og innfluttar vörur, nema þær nær 3/4 milj. Að undanskildum kaupstöðunum er aðeins Eyrarbakki og Stokkseyri hærri. Á Sauðárkrók er einnig útræði og talsvert fiskiúthald á ýmsum tímum árs. Segir það sig sjálft, hve mikið atvinnutjón getur stafað af því, ef slíkur útvegur teppist á einhvern hátt. Það kemur sér einnig mjög illa, að skip, sem koma þangað, skuli þurfa að tefjast og oft og einatt bíða lengi vegna hinnar slæmu hafnar. Þetta fyrirtæki er einnig, að því er millilandaskipin og strandferðaskipin snertir, til hagsmuna fyrir landið, þar sem það miðaði til þess að koma í veg fyrir, að skipin verði fyrir miklum töfum, sem einkum eru hvimleiðar fyrir alla þá mörgu farþega, sem með skipunum ferðast kring um landið.

Eg skal ekki fara mikið út í hinar aðrar breytingartillögur, er fram hafa komið. Þó vil eg geta þess, að eg er hlyntur viðaukatillögunni á þskj. 345, sem háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) mælti með. Álít eg, að sú fjárveiting, 1200 kr. til Jóns sagnaskálds Stefánssonar, komi í góðan stað niður og sé síður varhugaverð, þar sem hún er í eitt skifti fyrir öll. Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.), sagðist ekki villa láta hana koma til atkvæða nema því aðeins, að hann væri viss um, að hún yrði samþykt, og þykir mér líklegt að svo verði.

Að öðru leyti vil eg minna á það, að áður fyrri var haft það fyrirkomulag að því er snerti fjárveitingar til vísinda, bókmenta og lista, að þingið veitti ákveðna upphæð, sem svo stjórnin úthlutaði. Það hefir oft komið til tals, að hverfa nú aftur að þessu fyrirkomulagi, en þó þannig, að féð væri veitt af stjórninni eftir tillögum og í samráði við nefnd, sem kosin væri af þinginu. Eg veit ekki, hvort þetta þing vill nú taka ákvæði um þetta. Hygg eg, að það væri til bóta, því það sparaði umræður í þinginu, og auk þess væri að ýmsu leyti heppilegra.

Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) hefir komið með tillögu á þgskj. 400 um að að veittar væru 1000 kr. til útgáfu og prentunar á hinum fornu alþingisbókum. Fór hann mörgum kröftugum orðum um tillöguna, eins og hans er venja, þá er hann beitir sér fyrir einhverju, sem honum er áhugamál. Eg hygg, að ekki sé þörf á að gefa út þessar bækur, því að að eins örfáir menn mundu hafa not af þeim. Þessar bækur yrðu ekki til aflestrar almenningi, en mundu einungis verða notaðar af sagnariturum eða öðrum vísindamönnum. Væri réttara að nota það fé, sem til slíkrar útgáfu gengi, til ritlauna fyrir nýsamin sagnarit, t. d. íslenzka réttarsögu, sem einhver fær maður, eins og t. d. núverandi kennari í henni við lagaskólann, tæki að sér að semja og gefa út. Höfundar slíkra rita geta haft full not af alþingisbókunum og öðrum heimildarritum, sem liggja í söfnum landsins, þó að eigi sé kostað til að gefa þau út á prenti.