03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Magnússon:

Eg ætla að eins að gera stutta athugasemd við ræðu háttv. þm. Dal. (B. J.). Hann hefir misskilið það, sem eg sagði um Einar Hjörleifsson í sambandi við Þorstein Erlingsson. Eg var að eins að bera saman hvað eftir hvorn lægi á síðari árum. Þessi h. þm. verður að virða mér það til vorkunnar, þótt eg setji svolítið spurnarmerki við það, sem hann segir um afrek Þorsteins Erlingssonar. Eg minnist þess, að árið 1903 sagðist háttv. þm. svo frá í blaði því, er hann þá hélt úti, Ingólfi, að Þorsteinn Erlingsson hafi fullsamið 5—6 arkir af Eiðnum og langt kominn með Jón Arason. Á þingi 1909 segir hann hið sama, nema að því leyti, að þá sé lokið prentun á 5 örkum af Eiðnum og er það sama og lokið var við að semja þá fyrir 6 árum. 1911 stendur við það sama, nema þá er lokið við að hreinskrifa einni örk meira af Eiðnum. Eg segi þetta ekki af því, að eg sé beint að amast við styrknum til Þorsteins Erlingssonar, heldur til að mótmæla því, að styrkurinn til hans sé borinn saman við fjárveitinguna til þeirra manna, sem vinna að bókmentum vorum og eitthvað sést eftir, svo sem Einars Hjörleifssonar og Guðm. Magnússonar.

Eg vil mæla fram með styrknum til útgáfu lögþingsbókanna. Það ætti fyrir löngu að vera búið að gefa þær út. Hver sú þjóð, sem þjóð vill heita, hlynnir að slíkum fræðum, sem geymd

eru í þess konar ritum, sem eru lögþingistíðindin. Í þessu er verulega mikill og þjóðlegur fróðleikur fólginn, og það fróðleikur um þann tíma sögu vorrar, sem vér annars ekki höfum rannsakaðan. Eg er viss um að enginn sér eftir því fé, sem varið yrði til að gefa út lögþingisbækurnar, og geng eg að sjálfsögðu að því vísu, að ekki sé hér um annað en textaútgáfu að ræða.

Það hefir verið spurt um, hvort brýn nauðsyn væri á hafnargerð í Vestmannaeyjum. Eg þykist hafa áður reynt að skýra það fyrir hinni háttv. deild, að svo væri, en skal þá bæta því við, að með því að höfnin er bæði þröng og grunn, hafa orðið þar skemdir í stórbrimum; er mér sagt svo, að skemdir, er urðu á mótorbátum þar í fyrra, hafi numið um 12000 kr., en í ár að eins nokkru minna. Þess vegna álíta Vestmanneyingar, að það beri að bæta höfnina hvað sem það kostar. Flestir þingmenn munu vera svo kunnugir þar, að þeir vita hvernig hagar til. Eg get vel búist við, að þaðan gangi næsta ár 60 mótorbátar eða fleiri. Virðist því nauðsynlegt fyrir fiskiútveginn þar, að hér sé bráð bót á gerð. Skal eg svo ljúka máli mínu.