03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Sigurður Gunnarsson:

Í gær fór 2. þm. Árn. (S. S.) mjög hörðum orðum um breyttill. mína á þskj. 413. Fór eg þar fram á, að styrkur til búnaðarfélaga væri hækkaður úr 22000 kr. upp í 26000 kr., en jafnframt væri styrkur til Búnaðarfélags Íslands færður niður að sama skapi. Það er trúa mín, að sú styrkhækkun mundi mælast mjög vel fyrir á meðal bænda. Eg hygg, að þingmaðurinn muni heldur ekki geta haft neitt á móti styrkhækkun til búnaðarfélaga. (Sigurður Sigurðsson: Eg mælti heldur ekki á móti þeirri styrkhækkun). Fyrir mér vakir að eins það, að fá styrkinn til búnaðarfélaga hækkaðan; hitt hirði eg minna um, hvort hann er lækkaður á Búnaðarfélagi Íslands eða ekki. Það félag er mikilsvert félag.

Þingmaðurinn sagði, að það sæti illa á mér að mæla á móti Búnaðarfélagi Íslands, því nú ætti að setja á stofn námsskeið á Snæfellsnesi. Eg er því mjög feginn, og því fegnari yrði eg, ef þm. gæti sjálfur farið í þann leiðangur. En ef svo er ekki, þá vona eg, að hann sjái svo um, að sendur verði maður, sem er hans jafningi, en enginn liðléttingur. (Sigurður Sigurðsson; Enginn efi leikur á því).

Þá sendi þm. nöpuryrði til prestastéttarinnar. Hafði hann eftir mér spaugsyrði, sem eg sagði við hann utan þingdeildar, að mér sýndist, að sendimenn búnaðarfélagsins ættu að hafa með sér meira púður en raun væri á orðin. Tók hann tilefni af því að segja, að lítið púður væri í ræðum klerkanna. En mundu þeir eiginlega margir hér, sem finna mikið púður í ræðum 2. þingmanns Árn.

Um smjörbúin ætla eg ekki að ræða; aðrir haf lýst skoðun sinni á því máli.

Svo ætla eg að eins að minnast á tvo aðra styrki. Það hefir verið lagt til, að styrkur til Good-Templarareglunnar falli burt. Er hún talin pólitískt félag, og það talið ósæmilegt. Það er satt, hún hefir haft þá pólitík, að firra menn voða, og tel eg þá pólitík farsæla. Ef svo fer, að banninu verði frestað, þá er full ástæða til að halda styrknum, ef ekki, þá er þó nóg verkefni samt fyrir hana. Þá er styrkur til að semja dýralækningabók. Fjárlaganefndin hefir misskilið mína tillögu. Hún er ekki sú, að svifta dýralækni persónulegri launaviðbót, en það hefir mér ekki komið til hugar. Tillaga mín er sjálfstæð viðaukatillaga. Ekki þarf að mæla með slíkri bók frekara. Er það ómissandi, að slík bók sé til á sem flestum heimilum. Tel eg sjálfsagt, að Magnús Einarsson dýralæknir verði höfundur þeirrar bókar. Vona eg, að þessu verði vel tekið. Um aðrar tillögur skal eg ekki þreyta menn á að tala. Mun eg sýna með atkvæði mínu afstöðu mína til þeirra. Eg mun styðja allar þær tillögur, sem auka og tryggja framleiðslu í landinu og afla þjóðinni heiðurs og sóma.