03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Skúli Thoroddsen:

Mér láðist það síðast, að geta um þá breyt.till. frá fjárl.n., að Sighvati Grímssyni Borgfirðing verði veittar 200 kr. til þess að kynna sér skjalasafnið hér. Hann hafði til þess 200 kr. á síðasta fjárhagstímabili og var hér um vetrartíma, og mun landsskjalavörður geta vitnað það, að hann var við starf sitt vakinn og sofinn á safninu alt þangað til hann fór. Og þá kvartaði hann sáran um, að hann hefði ekki getað verið þar lítið eitt lengur. Nú er hér farið fram á það að gefa honum kost á því, og héðan af verður ekki farið fram á frekari styrk til þessa, vænti eg því að þessu verði vel tekið. — Sama vil eg segja um fjárveitingu til lendingarsjóðs Bolvíkinga. Það hefði að vísu verið ætlandi, að hún hefði fengist hærri en þetta, því að meiningin var, að framkvæmdirnar yrðu í töluvert stórum stíl og lending þar er ill og torveld og þarf mikilla umbóta við. Nú hefir fjárl.n. ekki viljað veita nema 1 þús. til þessa og má vera, að það komi að einhverju haldi, þótt lítið sé.

Aðallega stóð eg upp til þess að svara ummælum h. ráðh. (Kr. J.) um botnvörpungasektirnar. Hann lagði fast að þingdeildinni að fara varlega í það mál og vildi leita hófanna um samkomulag. Eg verð að vera því algerlega mótfallinn, að Íslendingar fari að leita samkomulags við aðra um neitt það, sem er jafnfreklega íslenzkt sérmál eins og það, hvað oss þóknast að gera af þessu fé. Og í hverju skyni ætti það að teljast hyggilegt að fara varlega í þetta? Er hæstv. ráðh. hræddur um að Danir muni kippa að sér hendinni og hætta við strandgæzluna? Ekki er eg hræddur um það. Enda ættum við ekki, ef í það fer, að vera þau smámenni, að við reyndum ekki að útvega oss tvo fallbyssubáta. Og það er ekki til neins að segja, að það sé oss ekki heimilt. Því trúir enginn, því að landhelgin er sama sem Ísland. Ekki álít eg heldur, að það hefði neitt gott í för með sér fyrir sambandsmálið, þótt farið væri að ráðum ráðh. í þessu. Það mál er ekki þess eðlis, að vér eigum ekki að halda fullri einurð vorri eða

láta traðka rétti vorum, þar sem vér getum annað. Viðvíkjandi því, að hæstv. fyrverandi ráðh. hafi átt að gefa Dönum ádrátt um þetta, þá er það að segja, að hann hefir nú sjálfur skýrt frá því, að hann hafi aldrei lofað öðru frekara en leggja þetta mál undir þingsins dóm, og það var líka eðlilegt, hann gat ekki ábyrgst meira. Danir vita það einnig, að hann réð ekki einn úrslitum þessa máls, heldur alt fjárveitingarvaldið. Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) talaði um þetta eins og smáútgjöld. Eg skal játa það, að fyrir Dani þykir mér það lítið að seilast eftir, en fyrir okkur er það ekki svo, við erum ekki nema 80 þúsundir. En aðalatriðið í þessu máli er það, að Dönum sé gert það ljóst, að þeir framkvæma alls ekki þenna starfa endurgjaldslaust fyrir oss eins og er. Veiðirétturinn, sem vér leyfum þeim í staðinn, er margfalt meira virði, en það sem þeir veita okkur í vörzlunni. Og það jafnrétti, sem dönsk hægrimannstjórn kom á í þessu meðal vor og þeirra,

að allir þegnar beggja landanna skulu njóta fullkomins atvinnuréttar í báðum löndum, — það hefir ekki við lög að styðjast lengur en vér sjálfir viljum. Það verður að gera Dönum það ljóst, að þótt þetta væri gert í fljótfærni árið 1905, sem aldrei skyldi verið hafa, þá höfum vér eigi með því spilt rétti vorum að neinu leyti, heldur er landhelgin okkar íslenzkt sérmál samkvæmt sjálfum stöðulögunum. Í annari grein þeirra hafa Danir með venjulegri stjórnmálaspeki búið svo í garðinn, að oss er þar gefinn réttur yfir landhelginni, eins og sjálfsagt er. Og svo er um fleira. Þannig eru siglingar sérmál, og gefur það oss skýlausan rétt til þess, að nota sérstakan siglingafána. En það er eins og komið sé við hjartað í þeim, ef á þetta er minst, og af því þarf að venja þá. Eins er t. d. með verzlunina. Hún er sérmál og því er þar vegur til þess að koma upp íslenzkum verzlunarráðunautum í útlöndum. Það er sérmál, þótt Danir kalli það alríkismál, og þeim íslenzka skilningi þarf að koma inn hjá þeim sem fyrst. Þess vegna hefir þetta atriði um sektaféð stórmikla þýðingu og eg get ekki vikið frá stefnu síðasta þings í því. Eg verð enn að taka það fram, að þetta, að fiskveiðaréttinn mætti skoða sem borgun fyrir vörzluna, kom glögglega fram í millilandanefndinni og varð Dönum þar mjakað til þess að telja sig ánægða með þá borgun meðan Íslendingar ekki taka strandgæzluna að sér. Þeir könnuðust við það, að hér væri ekki verið að veita nein ný réttindi heldur hefðum vér þegar rétt til að útiloka þá frá landhelginni, og væri það borgunin, að vér gerðum það eigi. Sé eg svo eigi ástæðu til að segja meira að sinni.