08.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Einar Jónsson:

Eg ætla ekki að fara að krítisera allan þann tillögubunka, sem hér liggur frammi, það yrði of langvint og leiðinlegt verk, en um tillögu, sem eg ásamt öðrum háttv. þm. hefi borið fram, ætla eg að fara nokkrum orðum. Það er till. á þgskj. 497. Bændur í sveitunum óska mjög eftir því, að eitthvað sé gert ullinni til bóta og markaði hennar. Hún er ein hin stærsta framleiðsluvörutegund þeirra, og þetta því hið stærsta nauðsynjamál. Eins og tillagan ber með sér, þá er það tilgangurinn, að sendur sé maður til helztu verzlunarstaða erlendis, þar sem íslenzk ull er keypt, sem svo kynni sér rækilega, hvernig ullin skuli þvegin, þurkuð og flokkuð, eða hvort að hún skuli alls eigi þvegin og þess í stað send frá eigendanna hendi óhrein. Eg veit, að ýmsir halda fram, að ef viðskiftaráðunauturinn lifir og heldur áfram sínum ferðum og starfi, þá eigi hann að hafa þennan starfa á hendi ásamt öðru fleiru. En það hljóta allir að sjá og skilja, hvort sem viðskiftaráðunautur vinnur gagn með sínum ferðum erlendis í ýmsum greinum eða ekki, þá er núverandi viðskiftaráðunautur óverzlunarfróður maður ekki síður í ullarviðskiftum en öðrum kaupum og sölum og því ólíklegur til þess að nægja þessu máli, en einkum er hitt auðséð, að hann hefði ekki tíma til að fara um á milli bænda hér á landi eftir því, sem nauðsyn krefði. En sá maður sem hér er um að ræða myndi aftur á móti ferðast í útlöndum og einnig hér á landi meðal bænda, og kenna þeim þær aðferðir við ullarverkun, sem hann teldi nauðsynlegastar. Vona eg, að þessi tillaga okkar sé hyggileg og miði til þess að koma ullinni í meira álit og hærra verð. Það er öllum kunnugt, að síðan fiskimat komst hér á landi, þá hefir fiskurinn komist í vissara og hærra verð. Svo mundi það og fara með ullina; verðið mundi hækka og festa komast á, ef maður væri sendur til útlanda til að kynna sér ullarmarkaðinn. Þessi maður þarf að sjálfsögðu að fá ferðakostnað útborgaðan af landsins fé, og vonast eg eftir, að alþingi sjái ekki eftir því fjárframlagi, sem til þess fer. Hér er ekki farið fram á meira en að hann fái lítinn ferðakostnað í 2 ár. Þegar það væri svo búið að standa þetta tímabil, þá þyrfti að koma á reglulegu ullarmati. Þó maður þessi væri ekki nema einn, þá er það álit mitt, að hann ynni máli þessu mikið gagn. Ætlast eg til, að hann ferðist á milli kaupmanna og bænda, og þeir fari svo eftir hans fyrirskipunum. Við, sem eigum ull, vitum mjög vel, að hún er illa vönduð frá vorri hendi í flestum tilfellum. En kaupmenn hafa þar ekki góða afstöðu. Þeir, sem verst vanda ullina, eru oft óvandaðir í almennum viðskiftum. Þeir láta svo ullina upp í skuldir, sem kaupmaðurinn á á hættu að fá aldrei greiddar annars. Vilji nú kaupmaðurinn ekki taka hina illa verkuðu ull affallalausa, þá fer bóndinn með hana til annars kaupmanns. Hann verður þá venjulega fús til að taka við henni í þeirri von að fá góðan viðskiftavin og tekur hana sem góða og gilda vöru. Þessi ull fer svo á útlendan markað óaðgreind frá annari betri tegund, og verður þar að hneyksli ullinni í heild sinni. Hugsun bænda er það, að þetta eftirlit geti orðið til stórkostlegra bóta, líkt og fiskimatið. Eg vil minna menn á, að þessi aukning á fjárlögunum er ekki stór. Flestir munu hugsa sem svo, að við megum ekki bæta við þau. En ef þess er gætt, að hagnaður sá, sem vænta má að af þessu hljótist, verður margfalt meiri en tilkostnaðurinn, þá er þó alla jafna eigi illa ráðið. Nú er ull hjá bændum í hinu mesta ólagi, mest vegna ókunnugleika, og hvort sjá þá menn eftir þessu litla fé til þessara umbóta, þegar þess er gætt, að eitt skáld fær eins mikið fé árlega og þessu nemur, og það þó ekki komi neitt frá því ár eftir ár. Menn verða að gæta þess við hvaða kjör bændur eiga að búa Þeir vinna baki brotnu dag hvern, mega enga stund missa, ef þeir eiga að hafa ofan í sig og sína, og hafa því ekki einu sinni tíma til að lesa það, sem frá skáldunum kemur, hversu mikið »Gull« sem það kann að vera. Óska eg svo, að þessi tillaga nái fram að ganga. Skal eg svo ekki þreyta menn með að tala meira um þetta mál. Vona eg, að öllum sé ljós nauðsyn þess. Meðflutningsmenn mínir munu og taka til máls um það.

Svo hefi eg komið fram með aðra tillögu ásamt samþingismanni mínum. Við förum sem sé fram á, á þgskj. 503, að veittur sé fjárstyrkur til dragferju á Þverá hjá Hemlu í Rangárvallasýslu. Tekjuhalli er að vísu orðinn mikill á fjárlögunum, og því athugavert að bæta útgjöldum við. En það er þó með þessa tillögu eins og hina, að það mælir öll sanngirni með henni. Þverá er vont vatnsfall og mikill farartálmi fyrir ferðamenn, og hefir versnað mikið síðan Markarfljót féll mestalt saman við hana. Verkfræðingur landsins hefir reiknað út, að til þess mundu duga 1600 kr. Er það ekki mikið framlag. Viðhald er ætlað að yrði 150 kr. Vona eg, að háttv. þingdeild felli ekki tillögu þessa.