09.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Sigurður Sigurðsson:

Eg ætla að gera grein fyrir tveimur meinlausum breytingartillögum, sem eg hefi komið fram með. Önnur er á þingskjali 226, og fer fram á að breyta skilyrðum fyrir lánum þeim, sem fjárlögin heimila að veita til girðingaefniskaupa. Eg hefi gert þessa breyt.till. samkvæmt ósk Búnaðarfélagsins og miðar hún að því, að þessi lán verði veitt með sömu skilyrðum, sem lán þau, er Ræktunarsjóðurinn veitir. Lánveitingar þessar eru svo náskyldar, að bezt fer á því, að sömu skilyrðin séu fyrir báðum.

Á sama þgskj. er viðaukatill. um að verja megi alt að 5000 kr. úr viðlagasjóði til smjörbúa og ostabúa. Þetta er ekkert nýtt, því að þessi lánveiting hefir staðið í fjárlögunum síðan 1899 og jafnan verið notuð. En nú hefir stjórninni láðst að taka hana upp í fjárlögin, og hugsa eg að það hafi fremur orsakast af gleymsku en því, að stjórnin væri henni mótfallin. Að vísu eru nú mörg smjörbú komin á fót, en þó er gott að hafa lánsheimildina áfram, því að væntanlega bætast fleiri við. Eg hefi bætt því við, að lánsheimildin nái einnig til ostabúa, því að nú er víða mikill áhugi á að koma upp mjólkurbúum, sem sérstaklega leggja stund á ostagerð; einkum á þetta sér stað á Norðurlandi. Í þessu sambandi vil eg geta þess, að menn hafa nú um hríð ekki verið sammála um, hvort heppilegra væri að færa frá eða láta ærnar ganga með dilkum. Auðvitað fer það mest eftir staðháttum, hvort heppilegra er, en svo virðist sem fráfærurnar, er víða lögðust niður um tíma, séu nú að fara í vöxt aftur. Sauðamjólkin er ágæt til ostagerðar, og má ætla að íslenzkir ostar úr henni verði á sínum tíma eftirspurð verzlunarvara. Tillaga mín miðar að því, að einhver rekspölur komist á það mál.

Þá á eg breyt.till. á þgskj. 548, þar sem farið er fram á, að breytt sé skilyrðum fyrir láninu til vatnsveitu á Miklavatnsmýri; eg hygg að þau kjör, sem eg fer fram á að veitt verði, muni vera hentugri fyrir þá, sem hlut eiga að máli.

Háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) á brtill. viðvíkjandi smjörbúum á þskj. 553. — Þótt merkilegt megi heita, virðist honum vera uppsigað við smjörbúin. En gott er til þess að vita, að fjárlaganefndin er mótfallin till. hans og vona eg því, að hún verði ekki samþykt; enda sé eg ekki, að mikið vit sé í henni, sízt í því formi, sem hún er. — Þá er till. háttv. 1. þm. Skgf. (Ó. Br.) aðgengilegri; hún fer fram á, að smjörbú, sem eru 10 ára eða þar yfir, verði eigi veittur frekari styrkur. En ekki get eg þó greitt henni atkvæði mitt, því að svo er mál með vexti, að hin elztu smjörbú byrjuðu flest í svo smáum stíl og höfðu svo ónóg húsakynni og áhöld, að þau urðu að byggja sér nýja smjörskála og útvega sér ný áhöld eftir fá ár. Að því leyti standa þau því ekki betur að vígi en þau smjörbú, sem seinna hafa verið stofnuð og væri því rangt að fara að svifta þau styrknum, enda eiga þau skilið meiri viðurkenningu en hin, því að þau brutu ísinn. Eg skil ekki heldur þessa óþreyju, þar sem ætlast er til, að styrkurinn fari minkandi um 2000 kr. á ári, og finst mér, að menn ættu að geta látið þar við sitja.

Þá er að minnast á till. frá háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.) o. fl., um að veita einhverjum hæfum manni 1200 kr. styrk til þess að fara utan og kynna sér meðferð á ull og ferðast síðan um og leiðbeina bændum í ullarverkun. Tillaga þessi er að vísu góð, en eg er þó ekki alls kostar ánægður með, hvernig hún er orðuð. Auk þess álít eg, að styrkurinn sé of lágur, sem farið er fram á, að veittur sé í þessu skyni.

Eins og kunnugt er, þá er ullarverkuninni mjög ábótavant hér á landi. Mönnum er heldur ekki ljóst, hvernig bezt sé að verka ullina, svo að hún geti talist góð vara. Skoðanir manna, er fást við sölu á ull, eru mjög skiftar í þessu efni. Sumir halda því fram, að bezt muni að senda ullina út óþvegna. Aðrir segja, að réttast sé að þvo hana, áður en hún er send, og þeirri reglu er alment fylgt. En þvotturinn á henni er ærið misjafn; það vita allir. Og svo er einnig spurning um það, hvernig eigi að þvo hana. — Þá er annað atriði í þessu máli og það er flokkun hennar. Hverja þýðingu hefir hún fyrir sölu á ullinni?

Um þessi atriði og mörg önnur þarf að fá upplýsingar, og þær upplýsingar eiga menn að fá hjá þeim, er kaupa íslenzka ull og nota hana.

Viðskiftaráðunauturinn hefir nú bent á ýmislegt þessu máli viðvíkjandi í skýrslu sinni til stjórnarinnar, en upplýsingar þær, er hann hefir aflað sér um þetta, virðast benda í þessa sömu átt, að skoðanir manna um, hvernig bezt muni vera að verka ullina, séu mjög á reiki. Fyrir því þarf að leita til þeirra, er kaupa ull héðan og vinna úr henni.

Nú mun megnið af íslenzkri ull vera sent til Ameríku og seld þar verksmiðjum til notkunar. Þyrfti því maður sá, er falið væri að kynna sér þetta mál, að ferðast þangað og tala við þá, er kaupa ullina þar og láta vinna úr henni. Þeim á að vera kunnugast, hvernig bezt sé að verka hana, svo að sem hæst verð fáist fyrir hana.

Eg álít nú, að svo framarlega sem vér höldum áfram að veita fé til viðskiftaráðunauts, þá beri að fela honum þennan starfa á hendur. Hver sá, sem ekki er fær um að taka hann að sér, getur heldur ekki álitist fær til að vera viðskiftaráðunautur. Það ætti því að binda styrkveitinguna annaðhvort við viðskiftaráðunautinn, eða einhvern annan ákveðinn mann, sem fær er um að taka þennan starfa að sér. Vil eg leyfa mér að nefna einn mann, sem eg hygg vera langfærastan til að gegna þessu starfi; það er hr. Páll Stefánsson frá Þverá. Væri því æskilegt, að styrkveitingin væri bundin við nafn þessa manns. Tel eg því réttast, að háttv. flutningsmaður taki tillöguna aftur að þessu sinni, svo að málið verði síðar tekið upp í líku formi og landbúnaðarnefndin hefir hugsað sér. — Tillagan er einnig eins og hún nú liggur fyrir, og búið er að sýna að mörgu leyti, lítt hugsuð og fljótfærnisleg, og þarf því að athugast betur.

Þá vildi eg minnast á tillöguna á þgskj. 554 frá háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.). Fer hún fram á að fella burtu alla skáldastyrki, nema til síra Matth. Jochumssonar. Eg er hlyntur tillögunni, en hins vegar skil eg ekki, hvað vakað hefir fyrir háttv. þm., þá er hann kom fram með hana. Eg veit ekki betur en að hann hafi áður verið með því, að veita skáldunum styrk, en nú kemur hann með tillögu um, að allar styrkveitingar til þeirra verði strykaðar út. En hann á eftir að gera grein fyrir skoðun sinni á þessu máli, og skal eg því ekki fara mörgum orðum um það nú. Að eins vil eg geta þess, að eg hygg, að þm. meini ekkert með þessari tillögu sinni, og að honum mundi því svíða það sárt; ef hún væri samþykt. En nú mun eg greiða atkvæði með henni, með því það er mín skoðun, að þessir skáldastyrkir eigi að falla burt. — En í sambandi við þessa till., vil eg minnast á aðra till. á þgskj. 574, er fer fram á það, að 17 þús. kr. skuli veittar til vísinda, bókmenta og lista, eftir tillögum 5 manna nefndar, sem kosin sé með hlutfallskosningu af sameinuðu þingi. Hugsunin í tillögunni er alveg rétt. — Það hefir oft verið vakið máls á því, að rétt væri að veita stjórninni heimild til þess að úthluta þessum styrkjum, en það hefir jafnan strandað á því, að menn óttuðust að hún mundi reynast hlutdræg í veitingunum. En öðru máli er að gegna, ef einhver nefnd eða ráð hefði tillögurétt, er stjórnin væri skyldug að taka tillit til við úthlutun styrksins. Eg er því tillögunni hlyntur, enda þótt eg ekki geti greitt henni atkvæði, vegna þess, að málið er enn lítt undirbúið.

Að því er breytingartillöguna á þgskj. 571 snertir, sem fer fram á að feld sé burt tilvitnunin um að styrkurinn til gufuskipaferða skuli veittur Thorefélaginu, skal eg geta þess, að eg álít naumast formlegt að gera það. En hins vegar álít eg, að háttv. deild ætti að koma með athugasemd eða tillögu, þar sem lögð væri áherzla á, að samningnum sé fylgt í öllum greinum. Sömuleiðis ber og að rannsaka, hvort skilyrðum þeim, er síðasta þing setti fyrir fjárveitingunni, sé fullnægt. Að endingu skal eg geta þess, að eg mun við atkvæðagreiðsluna fylgja þeirri reglu, að greiða atkvæði með öllum þeim tillögum, er fara fram á lækkun eða niðurfærslu á fjárveitingum, að svo miklu leyti, sem þær koma ekki í bága við tillögur fjárlaganefndarinnar. Mun eg eingöngu fara þar eftir sannfæringu minni, en ekki neinu öðru.