27.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Kristinn Daníelsson:

Eg hefi að eins komið með eina brtill. við þennan kafla fjárlaganna. Hún er á þskj. 773 og fer fram á að Sighvati Grímssyni séu veittar 300 kr. árlega í stað 200 kr. Hv. deildarmönnum mun vera það kunnugt, að þessi fræðimaður hefir getið sér góðan orðstír fyrir starf sitt. Síðasta þing veitti honum 200 kr. styrk, og færði hann sér hann með afbrigðum vel í nyt. Hann var hér í Reykjavík meðan peningarnir hrukku til, tvo mánuði, og notaði á þessum tíma yfir 400 bindi á handritasafni og landsskjalasafni landsins. Nú langar hann til að halda starfi sínu áfram, en getur það ekki styrklaust fyrir fátæktar sakir. Það er lítið sem beðið er um, og vona eg að hv. deild unni honum þess. Úr því eg stóð upp, þá vil eg minnast lítið eitt á nokkuð af hinum svokölluðu bitlingum. Sérstaklega finst mér Guðm. Guðmundsson vera æði lágt settur. Hann er áreiðanlega eitt af okkar beztu skáldum. Það var sagt áðan, að Þorsteinn Erlingsson mundi vera okkar bezti „Lyriker“, en eg hygg að Guðm. Guðmundsson standi honum alls ekki að baki, að Þorsteini alveg ólöstuðum. Sömuleiðis get eg ekki fallist á að lækka styrkinn til Helga Péturssonar. Það er kunnugt, að hann er mjög efnilegur vísindamaður, og væri það ekki rétt að láta hann gjalda þess að hann misti heilsu sína um stund. Sömuleiðis vil eg mæla með styrknum til söngvarans Péturs Jónssonar. Það hefir verið sagt, að hann hafi fengið góða stöðu á Þýzkalandi, en mér er kunnugt, að hann þarf enn þá að kosta miklu upp á framhaldsnám í grein sinni. Það fer fjarri því að námstími hans sé á enda, þó hann hafi nú fengið launaða stöðu, því að enginn getur orðið fullnuma í sönglist, nema á afarlöngum tíma. Að endingu vil eg benda á það, að í 18. gr. í 4. 1. að neðan er eitt nafn rangprentað, það er nafn móður minnar, og vona eg að skrifstofan megi leiðrétta það sem prentvillu.