08.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Bjarni Jónsson:

Eftir tillögum hins háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) er ætlast til að fella niður fjárveitingu til símans frá Búðardal til Stykkishólms. Það tel eg illa ráðið, ekki sízt fyrir þá sök, að þessi fjárveiting var tekin út af fjárl. á síðasta þingi. Eigi síður verr ráðið er það að fella niður fjárveitingu til símans á spottanum milli Búðardals og Borðeyrar, 14 þús. kr. Þótt fjárhagur landsins sé þröngur, þá er það ekki ráð að hefta bráðnauðsynleg fyrirtæki, heldur hitt, að bæta svo tekjurnar, að fyrirtækin hafist fram. Nú liggur fyrir þinginu frumv. um farmgjald, sem auka mun tekjur landssjóðs um 180—200 þús. kr., og ættu þeir menn, sem mest kvarta yfir því, hve fjárhagur landsins sé þröngur, að aðhyllast það frumv. eða leggja á bráðabirgðatolla. Einstaklingarnir græða ekki á því, að heft séu dýr fyrirtæki, ef þau eru arðvænleg, en landið tapar á því. Og það er skylda manna, að leggjast ekki undir höfuð neitt, sem orðið getur landinu til gróða og sóma. Það er lítill vandi og lítil framkvæmd til fjáröflunar til handa landssjóði, að skera og skera af nauðsynlegum útgjöldum, þangað til þau eru orðin jöfn á við áætlaðar tekjur. Það hefði auðvitað þurft að koma skattalöggjöfinni í nýtt horf, en úr því það verður ekki gert nú, verður að finna úrræði til að afla landssjóði tekna á annan hátt, svo að eigi tálmist fjárskorts vegna nauðsynleg fyrirtæki.

Eg á hér tillögu um að 3000 kr. verði veittar til þjóðvegarins milli Hjarðarholts og Ljárskóga. Þetta er alfaravegur og póstleið. Er á á veginum, lífshættleg að haustlagi og vorlagi, þótt lítil sé endranær. Skrifar póstur mér, að hann verði oft að bíða við hana dögum saman. Eg skal ekki fjölyrða um þessa fjárveitingu; eg geri ráð fyrir, að menn séu henni hlyntir, einkanlega þegar þess er gætt, hversu þetta hérað hefir orðið útundan í fjárframlögum frá landssjóði.

Þá skal eg víkja að 14. gr. Fjárlaganefndin hefir lagt til, að veittar séu 8000 kr. til unglingaskóla utan kaupstaða, þó ekki yfir 1000 kr. til hvers. Þetta er því undarlegra, sem jafnframt er lagt til, að unglingaskóli á Ísafirði fái 1500 kr. og á Seyðisfirði 1200 kr. í kaupstöðunum er langódýrast og auðveldast að halda slíka skóla, en þangað ætlast nefndin til að veita meira heldur en til skóla í sveitunum, þar sem er miklu erfiðara um skólahald. Eg skil ekki, hvernig nefndin hefir hugsað sér þetta, eða vit mitt á skólamálum má vera mjög tekið að förlast. Nefndin leggur til, að veita 1500 kr. til einhvers lýðháskóla á Hvítárbakka. Hver er þessi skóli, hvert eftirlit er á honum og hverra kenslukrafta nýtur hann? Eg veit það ekki, en það ætla eg, að þessi skóli ætti ekki að heita lýðháskóli, heldur það, sem á útlendu máli er kallað »humbug«. Eg skal ekki fara mörgum orðum um þetta, en það stendur vel á því, ef háskóli Íslendinga verður nú drepinn hér í deildinni, en þessi háskóli settur í staðinn, en ekki er mér gott í hug út af því. Þá fer hvað eftir öðru. Nú er ekki hægt að laga þetta með breyt.till., en ef eg næ einhvern tíma aftur í skottið á fjárlögunum, þá skal eg reyna að muna til þessa.

Aftur á móti er eg þakklátur fyrir styrkinn til séra Jóh. Lynge. Það var vel ráðið og viturlega, að bæta honum upp hallann, af því brauðasameiningin er ekki fram farin.

Háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) vill lækka námsstyrki við presta-, lækna- og lagaskóla, en hækka þá við kvennaskólana. Eg óska þess, að allar þær niðurfærslur verði feldar, en hækkunin megi standa. Allar slíkar styrkveitingar eru nú orðnar svo lúsarlegar, að þær mega ekki lækka úr þessu.

Við 15. gr. eru nokkrar breyttill Ein er frá háttv. 1. þm. Húnv. (H. G.) og háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) og fer fram á að sameina allan styrk til lista og vísinda og fá hann stjórninni í hendur til útbýtingar. Í sjálfu sér er mér þessi tillaga velþóknanleg. Það væri vel til fallið, að stjórnin veitti þennan styrk eftir tillögum hæfra manna. En ekki sparast nú með þessu það sem þegar er búið að veita, þótt vel megi þetta koma til athugunar næst. Svo er eg mótfallinn því, að féð verði veitt eftir tillögum nefndar, er kosin sé af sameinuðu þingi, það veitir enga tryggingu. Til þessa ættu að vera valdir formenn ýmissa stofnana, og af vísindamönnum einkum háskólaráðið, en af listamönnum formenn lista- og rithöfundafél. Þá mundi þess ekki gæta, hver flokkur er ofan á í þinginu. Og upphæðin, sem þeir hafa miðað við í till., 17 þús. kr., mætti ekki minni vera en 20 til 25 þús. kr. Hitt er ljót tala, og stjórnin hefði þá ekki heimild til að bæta við. Eg hygg, að ekki ætti að samþykkja þetta nú, af því að það kemur seint og er lítt undirbúið.

Þá er till. frá mér um að fella burtu 10. lið 15. gr., 600 kr. til þess að komast í Bernarsambandið. Eg talaði á móti því seinast, en láðist þá að geta þess, sem mest er um vert, en það er leikhúsið. Þetta er mest til þess gert, að hvert leikhús geti eigi grætt á leikurum með því að hver þjóð taki þá frá annari. Það er öllu minna atriði um þýðingarnar, sérstaklega fyrir okkur, þar sem svo fáar íslenzkar bækur eru þýddar á útlend mál. En leikhúsið okkar þarf auðvitað héðan af eins og hingað til að sækja nálega alt til útlanda. Og þótt vér getum fengið leyfi til þess að þýða, af því að vér erum svo fáir, þá er ekki víst, að höfundarnir leyfi okkur að leika leikrit sín fyrir ekkert, því að það halda þeir, að borgi sig, þar sem hér búa þó 10—15 þús. manna í bænum. En það vitum við, að yrði leikhúsinu óbærilegur skattur, ef það yrði að fara að borga útlendum höfundum nokkur hundruð krónur fyrir hvert rit. Eg legg því til, að þetta verði felt. Við töpum á því, en græðum ekkert. Aðra till. á eg um styrk til Jóh. S. Kjarvals. Hann er, eins og eg gat um við 2. umr., ungur listamaður, sem hefir kent sér sjálfur, og sýnt hér nokkrar myndir, þar á meðal er ein úr Borgarfirði eystra, sem Ásgrímur Jónsson segir að sé falleg. Eg bað í fyrstunni um hálfu meira handa honum og nú um þetta lítilræði, og býst eg ekki við, að menn verði á móti því. Pilturinn er efnilegur, og það sem mest er um vert, fullur skáldskapar í efni og litum, áhuga og trúar, ef honum að eins tekst að komast yfir þetta sker, undirbúningsmentunina. Vona eg, að hann vilji hjálpa til þess að skapa nýjan listamann þar sem hann er, hver veit hvað úr honum kann að verða?

Eg sé að nefndin hefir breytt styrknum til að semja þýzka orðabók. Nú eiga það ekki að vera nema 66 kr. fyrir örkina, 14 kr. dregnar af. Eg vil ekki segja um, hvort semjandinn muni taka það að sér, en ef hann gerir það, þá er það af því, að hann er fátækur, og það er ekki rétt fyrir þingið, að níðast á þeim mönnum. En ekki skal eg fjölyrða um það, þeir sem rétt vilja gera munu greiða atkvæði á móti þessu, og láta standa við það, sem samþykt var við 2. umr.

Þá er heiðursgjöfin til próf. Jensens, í 16. gr. Ástæðurnar fyrir því hafa nú einu sinni verið prentaðar, og skal eg því ekki fara langt út í þær, en það vil eg segja, að þeir menn, sem eru mér ekki samdóma í þessu, ættu þó að stilla sig um að gera lítið úr því, sem hann hefir gert. Hann á ekki skilið óþökk fyrir að gera gagn. Vér teljum Dani ekki skylda til slíks sem hann hefir gert, og gerum vel í því, að sýna einmitt með þessu, að vér skoðum þá sem útlendinga, en tökum ekki við velgerðum af þeim eins og sjálfsögðum hlut, af því að þeir séu limir á sama líkama og vér.

Svo er hækkun á styrk til Torfa í Ólafsdal, og býst eg við, að enginn mótmæli því né sjái eftir því, sem hann fær í elli sinni. Hann er nú yfir sjötugt og orðinn sjóndapur, og veit ekki nema hann missi alveg sjónina, og þá er þetta rýrt fyrir mann, sem hefir unnið landinu stórmikið gagn. Þeir sem ekki vilja veita honum þetta, eru beðnir að reikna út í dagsverkum, hve mikið vér græddum á því, að hann útvegaði oss ensku ljáina í staðinn fyrir gömlu spíkurnar. Og rétt er það, sem nú var hvíslað að mér, að síðan höfum við ekki þurft að rífa og höggva skógana til viðarkola til þess að dengja við, og er það ekki lítili sparnaður. Að minsta kosti verða þeir, sem vex í augum að hafa 4 skógarverði, að játa það, að örðugra mundi að vera án þeirra, ef þessa hefði eigi notið.

Nú eru ekki fleiri breyt.till. frá mér, en við 22. gr. er till. frá háttv. þm. Vestm.

(J. M.) um 60 þús. kr. lán til hafnargerðar í Vestmanneyjum. Eg vil leyfa mér að mæla með þessari tillögu, því að sá staður er sjálfsagðastur, næst Reykjavík, til hafnargerðar, einkum nú í sambandi við það, er hraðfréttasamband fæst þangað í einhverri mynd. Það getur enginn sagt, hve miklar tekjur það mundi gefa af sér. Þá geta öll fiskiskip leitað þangað. Það er ekki nema nokkurra klukkutíma sigling, og tvent ólíkt eða fara inn í botn á Faxaflóa. Þessi eini tekjuauki mundi hrökkva til vaxta og afborgana, eða ef til vill borga alt lánið. Annarsstaðar eru hafnir víða nær eingöngu fyrir þá einstöku staði, en bæði hér og í Vestmannaeyjum fyrir alt landið. Það er sparnaður að lána fé til þessa af því það er gróðafyrirtæki og mætti sanna með áreiðanlegum tölum að svo er. — Eg skal svo ekki segja meira nú, en mun geyma mér rétt minn þangað til seinna.