13.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

79. mál, bannlögin, viðauki

Sigurður Sigurðsson:

Eg heyri það sagt, að æskilegast sé að tala ekki mikið né hafa hávaða um þetta mál. Eg verð þó þegar að geta þess, að framkoma þessa frv. hneykslaði mig. Og svo mun það vera um fleiri alþýðumenn, er sjaldan skilja leiðir og hugsanagang hinna tignu manna. Eg verð einnig að taka það fram, að ef þetta frumv. á við konunginn, eins og eg hefi heyrt, þá var Hans Hátign það kunnugt áður en hann ákvað ferðina hingað, að hér var til aðflutningsbann á áfengi, og ef hann hefði sett það fyrir sig, mundi hann aldrei hafa ráðið ferðina. En þótt nú svo sé, að hér sé átt við þann tigna gest einann, og að ekki muni neitt annað misjafnt búa undir, þá get eg samt ekki verið með frumv., en álít bezt og snjallast að fella það. Ef konungur getur ekki í þessu efni felt sig við þau lög, sem hér gilda og faðir hans hefir staðfest, þá er honum ekki mjög hugleikið að heimsækja oss. Annars skal eg geta þess, að eg hefi heyrt, að hann óski þess, að ekki sé mikið lagt í kostnað við komu hans, og án þess að eg vilji sneiða að nokkrum, væri nú rétt að vér brendum oss ekki á sama soðinu sem 1907. Það er víst, þótt eg sé ekki að telja neitt eftir, að betur hefði mátt spara þá. Þetta er ekki sagt til móðg-unar við nokkurn sérstakan mann, heldur frá almennu sjónarmiði, og vænti eg að næsta sumar verði gætt meiri ráðsvinnu og sparsemi af opinberu fé, en þá var.