22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Þorleifur Jónsson:

Frumvarp það sem hér liggur fyrir er heppilegra en stjórnarfrumvarpið, sem var á ferðinni hér í deildinni í gær. Eigi að innleiða einokun á annað borð, þá tel eg betra að hafa ríkiseinokun en að selja réttinn til verzlunar á leigu einstökum manni eða félagi. Ekki sízt þótti mér stjórnarfrumvarpið óaðgengilegt af því, að eg gat búizt við að einkaleyfið lenti hjá sömu okrurunum, sem nú kúga okkur. Þó eg því fremur gæti hallast að frumvarpi því er hér liggur fyrir, þá virðast mér þó á því miklir agnúar. Það yrði dýrt að stofnsetja og reka slíka landssjóðsverzlun.

Milliþinganefndin frá 1911 gerði ráð fyrir, að kostnaður fyrir landssjóðinn við að reka verzlun með steinolíu yrði 169.977 kr. á ári. Svo áætlar nefndin að til þess að koma téðu fyrirtæki á fót yrði landssjóður líklega að taka 700—800 þús. kr. lán, því að ekki munu peningarnir vera fyrir hendi. Þá þykir mér og nokkuð viðurhlutamikið að gefa stjórninni svo víðtæka lánsheimild sem frv. fer fram á — að hún geti tekið það lán, er henni þurfa þykir og sömuleiðis tel eg varhugavert að stjórnin eftir eigin vild geti sett svo mikið af peningum landssjóðs í steinolíu, sem henni gott þykir. Mér þætti æskilegast að landssjóður styrkti innlent vezlunarfélag til þess að keppa við Steinolíufélagið danska, og slíku félagi ættu bankarnir og þingið líka að veita stuðning.

Af framantöldum ástæðum get eg ekki greitt frumvarpinu eins og það liggur fyrir, atkvæði. Og auk þess þykir mér málið alt of lítið undirbúið.