21.08.1912
Efri deild: 31. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

24. mál, stofnun Landsbanka

Björn Þorláksson (frsm.):

Eins og menn muna, var jeg ekkert hlyntur frumv. við 2. umræðu málsins, og fyrri liður þess er svo, að jeg hlýt að vera honum mótfallinn; hann er bæði óþarfur og fljótt framborinn, þar sem engin líkindi eru til útibússtofnunar þessarar fyrst um sinn.

Um síðari liðinn veit jeg það nú, að hlutaðeigandi bankastjórn álítur, að hans sje engin þörf, því hún lítur svo, á sem umræddri afgreiðslustofu muni ekki verða komið upp fyrst um sinn.

Afleiðingin af þessum upplýsingum er sú, að alt frumv. er óþarft, og jeg verð að líta svo á, sem við þingmennirnir sjeum komnir hingað í öðrum tilgangi en þeim, að leika okkur með tímann, og fjalla um jafn lítilfjörleg og óþörf mál, og frumv. þetta er.

Jeg er því á móti frumv., og vil ráðleggja öllum þeim, er ráð mín nokkurs meta, en þeir munu líklega vera fáir hjer í háttv. deild, að fella frv. sem óþarft.