30.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

117. mál, tilboð frá norsku stjórninni

Kristján Jónsson:

Þegar lögin nr. 27 frá 11. júní 1911 voru lögð fyrir konung til staðfestingar, varð eg þess var, að utanríkisráðherrann danski hafði einhvern grun um það, að mótmæli mundu koma fram á móti þeim. Úr mótmælum varð samt ekki. Hitt var mér kunnugt, að norski ræðismaðurinn hér fékk ákúrur frá stjórninni í Noregi fyrir að hafa ekki látið hana vita um þennan lagatilbúning. Það gekk auðveldlega að fá lögin staðfest af konungi vorið 1911. En í vor síðustu dagana sem eg var í Höfn, kom málaleitun frá norsku stjórninni um, að gerð væri breyting á þessum lögum, sem þá voru ekki ársgömul, og höfðu verið samþykt á Alþingi með miklum meiri hluta atkv., að minsta kosti man eg að svo var Ed., því að þar átti eg þá sæti. Það var þá einmitt tekið fram, eins og minst hefir verið á hér, að þetta lagaákvæði hefði verið samþykt eftir tillögum formannsins á varðskipinu. Þegar eg fékk þessa málaleitun, lá beint við að gefa það svar, að það væri undir Alþingi komið, hvort það vildi fella úr gildi lög er það hafði samþykt einu ári áður. Lofaði eg að málið skyldi koma fyrir Alþingi og samkvæmt því loforði hefir hæstv. núv. ráðherra (H. H.) komið með það inn á þingið. Í sambandi við þessa málaleitun var nokkuð minst á kjöttoll og hestatoll í Noregi, en eg hefi litla von um nokkra tilslökun í þá átt. Annars er málinu svo háttað sem háttv. þingm. Dal. (B. J.) tók fram og eru mér kunn hans afskifti af því. Þrátt fyrir ummæli háttv. þm. Sfjk. (V. G.) tel eg réttast að þingið nú taki málið til meðferðar. Reyndar lét eg í ljósi, þegar þessar málaleitanir komu fram, að það mundi naumast geta orðið á þessu aukaþingi, að úrslit fengjust á málinu; en á næsta reglulega þingi 1913 mundi verða gert út um það. Hér getur ekki verið ástæða til að tala um það að stjórnin láti leiða sig, þar sem hún var bundin við ný samþykt lög frá Alþingi, er henni gat ekki komið til hugar að það mundi vilja breyta nú þegar. Eg hefði ekki getað tekið á mig þá ábyrgð að lofa því, að lögunum yrði breytt. Þess vegna skýrði eg að eins frá að Alþingi skyldi fá málið til meðferðar. Held eg að það sé þar á sinni réttu hillu.