21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

85. mál, strandferðanefnd til að athuga strandferðirnar og Thore-samninginn

Pétur Jónsson:

Eftir því sem menn hafa betur hugsað þetta strandferðafyrirkomulag, hafa menn æ betur komist að raun um, hversu það er óhaglegt, og hve því fé, sem til strandferðanna gengur, er óhyggilega varið. Það er það dæmalaust ósamræmi í milli þessara ýmsu innfjarðabáta og strandbátanna, svo að hverir skaða aðra í stað þess að styðja. Með þessari þingsályktunartillögu er ekkert lagfært í þessu efni. Þar er alt í sömu óvissu sem áður. En það mun ósk nefndarinnar, að stjórnin leggi fyrir næsta þing einhverjar tillögur, sem miðuðu að því að koma betra skipulagi á þetta. Það er líka óskandi að stjórnin rannsaki þetta mál sem allra bezt til næsta þings, safni skýrslum um tekjur innfjarða og strandbátanna, sundurliðuðum eftir viðkomustöðum, og svo um kostnaðinn við þá. Reyni síðan að skapa eitthvert samræmiskerfi af ferðum þeirra báta, sem ganga innfjarða og með ströndum, og leggi þetta fyrir næsta þing. —